Fluttur…

…yfir á tumblr., sjáumst þar!

Keep on runnin’…

Skráði mig í Laugavegshlaupið 2012 á miðvikudaginn og þá er í raun ekki aftur snúið.  Hef líka verið nokkuð duglegur að fara út að hlaupa og eftir hlaupið í gær eru kílómetrarnir komnir í 110 þennan mánuðinn sem er næstum tvöfalt meira en á sama tíma í fyrra og þrefalt meira en allan febrúar fyrir ári.  Þannig að þetta er allt á réttri leið og bætingin töluverð frá því fyrir ári.  Enda ekki annað hægt ef stefnan er sett á að bæta alla tíma í öllum hlaupum.  Mætti svo líka fara að láta af því verða að láta gosið og nammið vera, spurning um að miða bara við að frá 35 ára afmælisdeginum sé allt slíkt bannað, allavega ærið tilefni… 😉

Fór semsagt út og hljóp í gær nokkuð hefðbundin hring.  Fór frá Laugateignum upp Kringlumýrarbrautina og svo inn í kirkjugarðinn í Fossvoginum og þaðan niður í Nauthólsvík.  Svo var bara stígurinn tekinn alla leið út á Seltjarnarnes og svo hefðbundin maraþonleið þar í gegnum og aftur til baka meðfram Sæbrautinni.  Hálkan var ekki mikil en ég var mjög feginn að vera með gormana á mér því það voru hálkublettir á stöku stað og ég veit ekki hvar þetta hefði endað ef ég hefði reynt mig á þeim án gormanna, sennilega bara á slysó… 😛

Er svo að reyna að gera upp við mig hvort ég fer í fótbolta í kvöld en svo er rólegt hlaup á mánudag og miðvikudag og svo sprettir á þriðjudag inni á milli.  Spurning hvort ég nái að henda kílómetrafjöldanum upp í 130km í mánuðinum (nb, þá er áherslan á gæðin en ekki magnið) og þá er ég nokkurn veginn á sama stað í lok janúar og ég var í lok mars fyrir ári.  Fínt að vera kominn á gott ról strax í upphafi árs en mikið svakalega er ég svekktur út í sjálfan mig að hafa verið í svona mikilli leti í haust, hefði betur drattast til að halda áfram að hlaupa og viðhalda forminu sem ég var kominn í síðasta sumar.  En það þýðir víst ekki að gráta Björn bónda heldur safna liði og halda bara ótrauður áfram…

En já, ég á semsagt afmæli á fimmtudag í næstu viku og það eina sem ég óskaði mér voru nýir hlaupaskór þar sem skórnir sem ég fékk um áramótin í fyrra eru eiginlega búnir núna, allavega er allt innra byrðið í þeim var að rifna og kuðlast og það er frekar pirrandi en hefur að vísu ekki valdið vandræðum enn sem komið er.  Svo væri líka ekki vitlaust að fá annan lit af hlaupasokkum, eitthvað aðeins karlmannlegra í þetta skiptið… 😉

Fyrir þá sem vilja svo koma sér í stuð, þá er hægt að horfa á þetta.

It’s alive!!!

Gerðum áðan góða ferð niður í Fossvog og framkvæmdum endurlífgunaraðgerðir á Gamla Grána.  Fengum startkapla lánaða hjá tengdó, húkkuðum þeim í rauðu eldinguna og bara smelltum honum í gang!  Hjálpaði sennilega til að hitastigið er komið uppfyrir frostmarkið og þegar við vorum nokkuð sannfærð um að hann færi næst í gang af sjálfdáðum var brunað með hann á bensínstöð og fest kaup á frostvara í bensíntankinn til að koma í veg fyrir að þetta komi aftur.  Kaplarnir fá svo bara að vera áfram í bílnum, vona að tengdapabba sé sama um það… 😛

Annars var þetta prýðis hlaupavika og heilir 37 kílómetrar hlaupnir (eða skokkaðir, hraðinn var nú varla hlaupahraði á köflum).  Samanborið við árið í fyrra þá náði ég ekki 37 kílómetrum á einni viku fyrr en aðra vikuna í apríl þannig að þetta er strax töluvert betra en þá auk þess sem ég sleppti raunar út einni hlaupaæfingu í vikunni og hefði þá farið yfir 40 kílómetrana.  En það má ekki heldur fara of geyst af stað og sprengja sig og/eða fara að meiðast.  Annars hefði það nú vel verið mögulegt í gær í hálkunni en þökk sé gormunum sem Palli gaf mér í fyrra þá tókst mér að standa í lappirnar ólíkt öðrum hlaupurum Afrekshópsins, en við tölum svosem ekki meira um það… 😉

Svo er stefnan sett á að halda bara áfram að hlaupa og koma sér í svaðalegt form fyrir sumarið.  Raunar var ég búinn að setja mér nokkur markmið fyrir árið:

  • LV2012 á 7:15 – 7:30
  • 10km á undir 0:50
  • 21.1km á undir 1:55
  • 7 tindar í 7tinda hlaupinu
  • Jökulsárhlaupið til gamans

Svo væri auðvitað ekkert leiðinlegt ef maður næði loksins að missa einhver kíló en þá þarf væntanlega að koma til gagnger endurskoðun á mataræðinu.  Fyrsta verk væri auðvitað að hætta að drekka gos og nammi, eða allavega bara leyfa sér það einu sinni í viku.  Verst hvað ég er svakalegur sælkeri þannig að það verður allt annað en auðvelt en það sakar ekki að reyna.  Ætla samt ekki að prófa einhverja bévítans megrunarkúra eða -töflur, bara reyna að minnka inntöku á hitaeiningum og auka brennslu á uppsafnaðri orku á móti.  Eða eins og það heitir á engilsaxnesku, the right way… 😉

Að lokum, Prodigy eins og maður hefur aldrei heyrt þá áður…

Hlaupaárið 2012

Það hafðist, ég fór út að hlaupa í gærkvöldi!  Margir myndu kannski segja að þetta væri nú ekkert ýkja merkilegt, en fyrir mig var þetta töluvert átak.  Ekki svo að skilja að þetta hafi verið erfitt, heldur tók það talsvert á að hafa sig í að klæða sig í gallann, setja upp playlist-a á iPod-inn og koma sér út úr húsi.  Hinsvegar þegar ég var loksins lagður af stað þá var ég mjög feginn að hafa haft mig í þetta því mér leið bara furðu vel á meðan á þessu stóð og svo hríslaðist um mig mikil sælutilfinning þegar heim var komið.  Var eiginlega búinn að gleyma hvað það getur verið gott að fara svona út að hlaupa, vera einn með sjálfum sér og góðri tónlist.  Sakar auðvitað ekkert þegar veðrið er gott en þrátt fyrir fimbulkulda var blankalogn og stjörnubjart.  Það er enginn viðbjóður.  Þannig að það má með sanni segja að hlaupaárið 2012 sér formlega hafið, jau jauuuuuu… 🙂

Annars ákvað gamli gráni (lesist: litli bíllinn) að neita að fara í gang í gærmorgun.  Þórunn hafði farið á honum í vinnuna kvöldið áður (næturvakt) en náði svo ekki að koma honum í gang þegar hún ætlaði heim aftur.  Þurfti því að sækja hana og skutla heim og fór svo með Palla til að reyna að koma honum í gang.  Fengum meira að segja Runa til að koma og gefa okkur start en allt kom fyrir ekki.  Vorum helst á því að það hefði frosið í bensínleiðslunni eða að það vantaði einhver kerti.  Spurning um að bíða bara eftir þíðu og reyna þá aftur að koma honum í gang og við Þórunn sameinumst bara um rauðu þrumuna á meðan.  Var reyndar mjög kósý að fara öll saman af stað í morgun, fórum fyrst með Elínu á leikskólann og svo skutlaði ég Þórunni í vinnuna.  Quality family time, úh baby! 😀

Svo er alveg kominn tími á smá tónlistarmyndbönd.  Fyrst er hin árlega samantekt DJ Earworm á Top 25 af Billboard listanum bandaríska, alltaf fjör hjá Eyrnaorminum.  Svo fann ég loksins lagið sem er í Sjóvá (?) auglýsingunni, hið stórskemmtilega Home með Edward Sharpe & The Magnificent Zeros, furðu góður slagari.  Og svo er ég líka voða ‘skotin’ í Pumped up Kicks með Foster The People, fínt skokklag.  Annars birti ruv.is lista yfir vinsælustu lögin á Rás 2 árið 2011, fullt af góðu stöffi þar (sem ég nenni ekki að finna linka á)… 🙂

Litið um öxl… og fram á veg…

Árið 2012 er runnið upp og ef eitthvað er að marka svartsýnustu menn (lesist dómsdagsspámannavitleysinga) þá er þetta síðasta árið sem við eigum eftir ólifað því fullyrt er að Mayarnir hafi spáð fyrir heimsendi 21. desember.  Spurning um að veðja við einhvern af þessum vitleysingum og hlæja svo upp í opið geðið á þeim 22. desember með fullar hendur fjár.  En nei, það má víst ekki hafa svona fávita að féþúfu, er eiginlega eins og að sparka í liggjandi mann… 😉

Allavega, árið 2011 var fínt ár að mestu leyti.  Var að reyna að rifja upp það helsta og man eiginlega ekki eftir ýkja mörgu fyrir utan að ég hljóp ansi mikið fyrri hluta ársins, kláraði loksins Laugaveginn sómasamlega (jafnvel þó tíminn hafi ekki verið neitt spes) og tók þátt í nokkrum öðrum hlaupum að auki.  Hætti svo alfarið að hlaupa í haust og sé enn mikið eftir því.  Verður ‘fjör’ að reyna að byggja þolið upp aftur fram á sumarið.  En það verður bara að spýta í lófa og girða í brók, ekki hægt að hætta þessu rugli núna heldur gera enn betur í ár og jafnvel massa LV2012 á undir sjö tímum, allavega eitthvað til að stefna á… 🙂

Elín fór á nýjan leikskóla í haust og er bara mjög sátt á nýja staðnum enda dekrað þar við hana á hverjum degi.  Fæ stundum á tilfinninguna að henni leiðist við Þórunn í samanburði við leikskólann, allavega hleypur hún þar inn á morgnana greinilega dauðfegin að fá smá pásu frá okkur foreldrunum.  Þórunn byrjaði að vinna á bráðamóttökunni og líkar bara mjög vel.  Ég söðlaði að hluta til um varðandi vinnuna og vinn núna hluta vikunnar fyrir öðlingana í GreenQloud á móti gömlu vinnunni.  Og rétt fyrir jól þá fékk ég einkunnir í þessum tveimur fögum sem ég var í og er þá formlega hálfnaður með mastersnámið mitt, víííí.  Í raun er þetta það helsta (ef ég er að gleyma einhverju þá var það bara ekki nógu merkilegt til að ég myndi það), þannig að 2011 var business as usual, nothing to see here, carry on…

En hvað tekur svo við á árinu 2012?  Sennilega bara meira af því sama sem er ágætt.  Ætla að byrja að hlaupa aftur (40 mínútur rólegt í dag) og koma mér í form fyrir sumarið.  Þarf að semja við Þórunni um að fá að fara aftur í Laugavegshlaupið og stefna svo líka á Sjö tinda hlaupið, Jökulsárhlaupið og svo einhver fleiri styttri hlaup.  Að vísu var Óli Þór að heimta að ég tæki maraþon á árinu, aldrei að vita nema það verði bara tæklað líka.  Sé svo framá að klára alla áfanga í skólanum og eiga svo bara eftir ritgerð fyrir vorið 2013 sem ég þarf að vísu í ár að ákveða hvað verður um, hef eiginlega engar hugmyndir sem stendur en það hlýtur að koma.  Svo verður bara unnið að vanda, tíðindalítið á öllum vígstöðvum…

Ætla jafnframt að lýsa því yfir að þetta blogg er formlega opnað aftur, með nýju útliti og alles.  Ætla ekki að lofa daglegum uppfærslum þó heldur bara eftir nennu en er búinn að heita því að reyna að halda þessu lifandi og þá mest með innihaldslausum skrifum um árangur (eða skorti á árangri) af hlaupunum.  Í bland verður svo eitthvað efni meira almenns eðlis en ég lofa engu um að það verði á nokkurn skemmtilegt fyrir nokkurn mann… 😀

Og að lokum: Gleðilegt ár!

Another day, a different office…

Er staddur í Garðastræti 37 á skrifstofu GreenQloud.  Ástæðan er sú að ég og Palli bróðir ákváðum að söðla aðeins um (þó ekki alveg) og erum núna að vinna þar þrjá daga vikunnar og svo tvo daga á móti í Hlíðasmáranum hjá IOS.  Erum báðir að koma okkur inní allt hérna, tekur smá tíma, nóg sem þarf að setja upp og breyta fyrir utan að kynna sér innviði kóða.  Gæti tekið nokkra daga en hinsvegar skemmtilegt að prófa eitthvað nýtt og vinna með nýju fólki (fyrir utan Eika, auðvitað).  Líka gaman að vera á skrifstofu í miðbænum, stutt að henda sér í fjörið þar… 😉

Fór í fínan fótbolta í gærkvöldi með gaurum sem hafa á einhverjum tímapunkti spilað með IF Guðrúnu í Kaupmannahöfn.  Þetta voru miklir fagnaðarfundir og menn ráðgera að hafa þetta vikulega hér eftir, enda margir fyrrverandi Guðrúnarmenn búsettir á Stór-Reykjavíkursvæðinu.  Var að vísu í tómu rugli og var klobbaður svona skrilljón sinnum en náði aðeins að bæta það upp með nokkrum klobbum sjálfur og svo einu svaðalegu skallamarki.  Hörku fjör og ég er strax farinn að hlakka til næsta sunnudags… 😀

Eins og venjulega, smoke ’em if you got ’em! 😛

Tenglasúpa sunnudagsins…

Sit heima á sunnudegi með frumburðinum og saman bíðum við eftir að frúin komi heim úr vinnunni.  Hún var plötuð í að taka aukavakt í dag, henni til mikillar gleði.  Byrjaði daginn að vísu ekkert allt of vel því henni tókst að læsa lyklana að bílnum inni í honum og bílinn í gangi í þokkabót.  Það þýddi að hún þurfti að fara á hinum bílnum í vinnuna og ég að sjá um að redda málunum.  Hringdi í neyðarþjónustu innbrotsþjófa sem sendu einn vanann mann á staðinn sem var kominn inn í bílinn á núll einni og talaði meira að segja í símann á meðan.  Það er greinilega ekkert voðalega erfitt að stunda innbrot í bíla miðað við það.  Heppilega er ekkert verðmætt í þessum bíl, hvað þá bíllinn sjálfur…

Er að drepast úr harðsperrum síðan á fimmtudaginn og ekki bætti úr skák fótboltinn sem ég fór í í hádeginu á föstudag.  Samt ákaflega gleðilegt að finna fyrir svona harðsperrum, var eiginlega búinn að gleyma tilfinningunni.  Veit þá líka að ég tók almennilega á því á fimmtudaginn en gallinn er í staðinn sá að ég er þá greinilega ekki betri en tíminn sagði til um.  Kannski ekki við öðru að búast, svosem, en hefði verið skárra að geta allavega blekkt sig með að maður ætti nóg inni.  Svo er greinilega ekki, því miður… 😉

Í kvöld verður svo skundað út á nes það er við álftir er kennt og eftir það upp í Kór þar sem spilaður verður fótbolti við fyrrverandi leikmenn Guðrúnar í Kaupmannahöfn.  Verða væntanlega fagnaðarfundir enda hafa allskonar kónar boðað komu sína.  Verður líka gaman að sjá hver hefur dottið mest í snakkpokann eftir að á Klakann var komið, pant ekki! 😀

Hef alltaf reglulega safnað ‘áhugaverðum’ tenglum í þar til gerða möppu á skjáborðinu hjá mér.  Nú er hreinlega komið að því að tæma möppuna og við ríðum á vaðið með 9 mismunandi þvaglosunaraðferðum karla, spennandi.  Svo er hér skjáskot frá Fox News, vel hægt að efast um áreiðanleika fréttastofu sem er ekki betur að sér í landafræði en þetta.  Svo er ‘Dear blank, please blank‘ alveg stórskemmtilegt, margar síður af allskonar sniðuglegheitum þar á ferð.  Svo rakst ég á þennan samanburð á trúarbrögðum og stjórnmálastefnum, sennilega nokkuð nærri lagi, meira að segja.  Svo er alltaf gaman þegar menn hafa of mikinn frítíma, hér er einn sem dúllar sér við að búa til listaverk úr hljóðsnældum.  Og í tilefni þess að Kevin Smith er væntanlegur í Hörpuna í næsta mánuði þá er tilvalið að fólk lesi þessa sögu (varúð, er í mjög mörgum hlutum), skyldulestur fyrir alvöru aðdáendur kauða.  Svo er þetta mjög fyndið líka, þarf ekkert að eyða fleiri orðum í það.  Að lokum, smá tónlistarmyndband og coverlag í þokkabót…

Powerade I

Lét Palla bróður plata mig til að mæta í hlaupið þrátt fyrir engan undirbúning og að það er rúmlega mánuður frá því ég hljóp síðast.  Hans orð voru, orðrétt: „Þú ert aumingi, tussa og kerling ef þú mætir ekki!“  Gat ekki verið þekktur fyrir að vera neitt af þessum miður fallegu lýsingarorðum (já, kerling er lýsingarorð þegar það er sagt um karlmann), hvað þá að vera allt af þessu.  Hellidemban sem breyttist svo í haglél á leiðinni upp í Árbæjarlaug var svo síður en svo til að ýta undir gleði mína að láta hafa mig í þessa vitleysu…

Hitti Afrekshópsfólkið og við hentum okkur svo saman í upphitun.  Ég var að vísu í tómu rugli, átti eftir að reima skóna og borga þátttökugjaldið þannig að við Palli og Snúbbi (nafnið sem ég nota á alla þá sem ég man ekki nöfnin á) tókum hring niður að stíflu og til baka.  Slepptum alveg að taka hraðaaukningar enda átti þetta ekki að vera hratt hlaup.  Stefnan tekin á að komast í mark og þá helst undir klukkutímanum…

Stilltum okkur upp frekar aftarlega í startinu og biðum eftir ræsingunni sem kom von bráðar.  Halarófan (metþáttaka, að mér skilst) mjakaðist hægt og rólega af stað og áður en ég vissi af var ég kominn á ágætis ról.  Gallinn var hinsvegar sá að fyrstu tvo kílómetrana voru birtuskilyrðin ákaflega döpur, engir ljósstaurar og ég þar að auki náttblindur dauðans.  Reyndi eins og ég gat að hafa bara augun á næsta manni og vonaði að ég færi ekki útaf stígnum eða stigi á hlauparana í kringum mig.  Tíndi Palla strax á fyrstu metrunum og hafði ekki hugmynd um hvort hann væri fyrir framan eða aftan mig.  Hafði svosem ekki áhyggjur af því enda nokkuð viss um að hann yrði langt á undan mér í mark…

Kom svo að göngubrúnni og þar voru loksins ljósastaurar sem voru auk þess með virkum perum sem gerðu það að verkum að ég sá, mér til mikillar gleði, að Palli var bara rétt fyrir framan mig.  Reyndi að halda tempo-inu upp brekkuna í átt að Efra-Breiðholtinu og sá þegar ég var kominn á efsta punkt að pace-ið var rétt undir 6:00 og framundan 5-6 kílómetrar niður brekkuna og tækifæri til að auka hraðann.  Náði Palla fljótlega og við hlupum saman alla leið niður að Stíflu þar sem ég ákvað að gefa aðeins í til að vinna upp smá tíma fyrir Rafstöðvarbrekkuna.  Neðst í dalnum var heildarpace-ið komið niður í 5:35 þannig að það var greinilega vel gefið í en þá var ég líka farinn að þreytast töluvert…

Ekki bætti úr skák að síðustu tveir kílómetrarnir voru svo allir á fótinn og þar að auki með ágætis mótvindi.  Mátti hafa mig allan við að halda dampi upp brekkuna og þurfti mikinn viljastyrk til að fara ekki að labba.  Þar fyrir utan fékk ég svo verk í mjóbakið upp brekkuna og hollningin á mér hefur líklega verið fremur dapurleg á þessum kafla enda missti ég nokkuð marga framúr mér.  Það rjátlaði svo aftur af mér eftir að ég var kominn undir brúnna aftur og ég reyndi að auka hraðann á ný en þá kom upp nýtt vandamál, krampi í vinstri kálfann.  Reyndi að harka mig í gegnum það og pína mig í að klára þetta.  Heildarpace-ið komið upp í 5:48 og þá var bara eitt að gera, klára þetta með sóma.  Var svo gríðarlega feginn þegar ég sá endamarkið blasa við og klukkuna sem sýndi 58 mínútur og einhverjar sekúndur að auki.  Renndi mér í markið og ‘byssutíminn’ minn sýndi 58:25 en væntanlega er hlaupatíminn eitthvað aðeins lakari þar sem ég setti úrið ekki í gang fyrr en ég fór yfir ‘official’ ráslínuna…

Hrikalega ánægður með að hafa látið hafa mig í þetta og á Palli miklar þakkir skildar.  Er líka gríðarlega sáttur við að finna að karlinn getur þetta ennþá og er eiginlega gáttaður á að tíminn var þó þetta góður miðað við hlaupaleysið undanfarið.  Næsta mál á dagskrá er svo bara Powerade II eftir mánuð og þá er ekkert annað í boði en að bæta þennan tíma… 😉

A huge can of whoop-ass

Tók mig til í mars í fyrra og byrjaði að safna saman tenglum á ofurballöður því ég hafði í huga að gera lista yfir ‘bestu’ ofurballöðurnar (að mínu mati, auðvitað) til að sýna fólki að þrátt fyrir þéttan skeggvöxt og karlmannlegt yfirbragð þá væri ég mjúkur inn við beinið.  Svo varð, að sjálfsögðu, ekkert úr því en ég geymdi hinsvegar listann til betri tíma.  Sá tími er sennilega bara kominn því hér kemur listinn, í allri sinni dýrð og í engri sérstakri röð…

  1. Heart – Alone: Eina lagið sem er í ‘réttri röð’ því þetta lag er og verður alltaf númer eitt, hands down.  Wilson systur eru magnaðar, Nancy rokkar á gítarnum og Ann neglir sönginn.  Þessi útgáfa er heldur ekkert síðri en sú upprunalega…
  2. Bonnie Tyler – Total Eclipse of the Heart: Bonnie er alveg með þetta, massa lag, massa rödd…
  3. Guns N’ Roses – November Rain: Þeir sem hafa fengið rauða spjaldið á haustin þekkja þetta lag vel, kannski of vel…
  4. PM Dawn – (I’d) Die Without You: Uppáhaldslag Þór Bæring og eitt af mínum uppáhaldslögum líka, kannski ekki ofurballaða per se, en gott engu að síður…
  5. Extreme – More Than Words: Alvöru rokkara ballaða af bestu sort.  Mana fólk til að reyna að hlusta á eitthvað annað lag með Extreme, come on, I dare you!
  6. Eric Carmen – All By Myself: Áður en Celine Dion eyðilagði þetta lag þá gerði þessi gaur það frægt.  100% væmið, 100% klysja…
  7. The Cars – Drive: 80’s smellur eins og þeir gerast allra bestir…
  8. Phil Collins – Against All Odds: Það vill oft gleymast hvað Phil er góður laga- og textasmiður, þetta sannar það svo um munar…
  9. REO Speedwagon – Keep On Loving You: Heyrði þetta lag fyrst þegar ég sá The Last American Virgin á sínum tíma, eldist töluvert betur en sú annars ágæta ræma…
  10. Frankie Goes to Hollywood – Power of Love: Fólk má segja það sem það vill um FGtH en það er ekki hægt að neita því að þetta er þeirra langbesta (sumir myndu kannski segja: og eina góða) lag…
  11. Nazareth – Love Hurts: Að vísu cover lag en þar sem enginn kannast við útgáfu Everly bræðra þá hundsum við það bara alfarið enda stórgott lag í alla staði…
  12. Simple Minds – Don’t You Forget About Me: Meiri 80’s gleði og sennilega eitt af þessum 80’s lögum sem allir þekkja, ekki síst í ljósi augljósra tengsla við John Hughes og morgunverðarklúbbinn hans…
  13. Foreigner – I Want to Know What Love Is: Enn og aftur 80’s smellur, gerðu menn kannski bara betri lög í gamla daga?!?
  14. Chicago – Hard to Say I’m Sorry: Nei, sorry, tek þetta til baka, Peter Cetera er bara aðeins of mikið fyrir mig (átti annars ágæta spretti í Karate Kid 2)… 😀
  15. Journey – Open Arms: Hvar væri svona listi án Journey?  Enough said…
  16. Meat Loaf – (I Would Do) Anything for Love: Tjah, eða án Meat Loaf?!?  Maðurinn er auðvitað bara kóngur…
  17. Mr. Mister – Broken Wings: Aftur 80’s lag?  WTF?!?
  18. Queen – Who Wants to Live Forever: Eitt af þessum lögum sem geta kallað frá tár á hvarmi, Mercury sennilega besti söngvari allra tíma í þokkabót…
  19. Aerosmith – I Don’t Wanna Miss a Thing: Klárlega það eina góða við Armageddon (sem var mostly awful), Tyler er líka alltaf flottur…
  20. Guns N’ Roses – Don’t Cry: Með tvö lög á listanum?  Er þá hægt að segja að þeir séu konungar ballaðana?!?  One wonders… 😉

Og þar hafið þið það, 20 lög sem er fínt að vanga við á góðum degi (eða bara slæmum).  Örugglega fullt af lögum sem ég er að gleyma (endilega látið mig vita ef svo er), tek samt fram strax að Metallica er í straffi eftir allt Napster vælið, það nennir enginn að hlusta á væluskjóður (113 á kantinn).  Sama gildir um allt sem kemur frá Celine Dion, Mariah Carey eða Whitney Houston, fæ bara útbrot og ógeð ef ég hlusta á það breim… 😉

Over and out!

Je n’avais pas besoin de cette hypothèse-là

Talaði við píparann áðan og fékk meira af ‘gleðilegum’ tíðindum.  Enn að koma í ljós meira af rusli þarna í húsgrunninum og nú þarf að skipta út öllum flísum á allavega tveimur veggjanna.  Sagði mér basically að þeir yrðu ekki búnir fyrr en um miðja næstu viku.  Vona að tengdó verði ekki orðin alveg geðveik á okkur og leyfi okkur að vera allan tímann, annars þarf bara að taka stöðuna á múttu og sjá hvort hún hýsi okkur… 😉

Elín Dögg er svo ekkert að gera okkur auðvelt fyrir því hún hefur tekið upp á því að vakna alltaf rétt um sexleytið með tilheyrandi hávaða og þar sem við höfum ekki geð í okkur til að venja hana af því heima hjá tengdó þá neyðumst við bara til að fara á fætur með hana.  Afvenjunin er nefnilega basically að leyfa henni bara að grenja þangað til hún gefst upp og þó svo ég hafi þolinmæði í það þá efast ég um að tengdó hafi það.  Ætla allavega ekkert að láta á það reyna, vona bara að hún sofi lengur í fyrramálið…

Við bræðurnir hlupum sjö kílómetra á mánudaginn og það gekk eiginlega alveg glymrandi.  Tókum öfugan hring um Kársnesið þannig að við byrjuðum á því að fara yfir hæðina og svo útfyrir Kársnesið og til baka í Turninn.  Ákváðum að það væri betra að byrja á brekkunni frekar en að eiga hana eftir rétt í lokin, það var góð ákvörðun því á endanum tókst okkur að vera undir 6 mín/km að meðaltali.  Vorum einmitt að hlæja að því að á sama tíma í fyrra vorum við að hlaupa á ca. 7 mín/km sem þýðir mun upp á næstum klukkutíma ef við miðum við 55 kílómetra.  Hefðum rúllað þessum Laugavegi upp hefðum við haft rænu á því að hlaupa aðeins hraðar.  En c’est la vie… 😀

Og talandi um Bandaríkin, þá rakst ég á þetta og þótti frekar fyndið… 😀