It’s the end of the week, as we know it…

Var að enda við að sjá Íslendinga vinna Brassa nokkuð létt á handknattleiksvellinum.  Svo skiptu skvísurnar hérna á Álftanesi yfir á Júgravisjón undankeppnina á RÚV+ og ég ákvað að ég skyldi horfa á það yfir minn dauða búk.  Og þar sem ég er ekki dauður enn þá er ég einmitt EKKI að horfa á þennan óbjóð.  Verst að þær eru með sjónvarpið stillt það hátt að ég heyri í þessu breimi sem á að heita tónlist.  Getum þá kannski huggað okkur við það að ef fram heldur sem horfir og lögin næstu tvö kvöld verða ekki mikið skárri þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að vinna keppnina í maí og þurfa að halda hana að ári… 😉

Skellti mér hring hérna um Álftanesið fyrir hádegið og hljóp samtals átta kílómetra.  Bætti mig um tvær mínútur frá því síðustu helgi en það segir svosem ekki mikið því hraðinn þá var ekkert brjálaður.  En alltaf gaman að bæta sig hinsvegar og ekki spillti fyrir hvað veðrið var gott og auk þess gaman að hlaupa ekki alltaf á sömu stöðunum.  Er að vísu vel kunnugur hlaupaleiðunum hérna en langt síðan þær voru prófaðar síðast.  Hljóp þá samtals 19 kílómetra í vikunni fyrir utan það að ég fór fjórum sinnum í fótbolta líka þannig að heildartalan er væntanlega eitthvað hærri… 🙂

Hringdi í píparann í gær sem sagði mér að við værum barasta ekkert að fara að flytja aftur á Laugateiginn á næstunni því þegar gólfið var brotið upp kom í ljós að ekki nóg með að vatnslásinn væri ónýtur þá eru nánast allar lagnir það líka þannig að þeir þurfa að skipta um þetta allt saman.  Það gæti tekið bróðurpart næstu viku í viðbót og við verðum því áfram hérna hjá tengdó á meðan.  Þau eru að vísu nokkuð ánægð með það, geta þá horft á HM á meðan því ég hafði rænu á því að grípa afruglarann með af Laugateignum… 😉

Henti mér í Smáralindina áðan í Levi’s búðina til að athuga hvort ég fyndi ekki gallabuxur á útsölu.  Það gekk svo vel að ég labbaði þaðan út með gallabuxur, bol OG skyrtu!  Borgaði fyrir þetta allt saman nokkurn veginn það sama og ég hefði borgað fyrir buxurnar fullu verði þannig að í heildina sparaði ég ekki neitt heldur eyddi bara meiru, vel gert.  Ákvað að kíkja ekki í aðrar búðir af ótta við að það sama yrði uppi á teningnum þar og tók bara strikið út úr Smáralindinni aftur.  Kom svo við á leiðinni heim og keypti kjamms fyrir skvísurnar fyrir leikinn og Júgravisjón, allir sáttir, málið dautt! 😀

Auglýsingar

Roknes

Var að koma heim úr fótbolta sem var, merkilegt nokk, gríðarlega góð skemmtun þrátt fyrir frekar leiðinlegt veður.  Það er nefnilega svo merkilegt hvað veðrið er alltaf mikið betra í Laugardalnum en annars staðar, þar getur verið blankalogn þó að vel blási úti á Nesi (Seltjarnar- eða Álfta-).  Ég hefði samt betur hitað aðeins upp því ég var í tómu tjóni framan af æfingu, sendandi á mótherja og tapandi boltanum.  En þegar ég var svo loksins kominn í gang þá fór ég að láta að mér kveða og að lokum skoraði ég sigurmarkið á æfingunni, stangaði innkast í samskeytin og inn, takk fyrir! 😀

Henti mér á hlaupabretti í gærkvöldi í fyrsta skipti í töluvert langan tíma.  Mundi strax af hverju það var svona langt frá því ég gerði það síðast því þetta er alltaf jafn óstjórnlega leiðinlegt og ég skil ekki fólk sem hleypur eingöngu á bretti.  Prísaði mig sælan að þurfa bara að hlaupa samtals sex kílómetra, þarf af 3x800m spretti, hefði sennilega sálast úr leiðindum ella.  Geri þetta allavega ekki aftur í bráð og þá bara í algjörri neyð.  Hinsvegar var fínt að nýta tækifærið og prófa World Class í Hafnarfirði, lítil og notaleg stöð þar á ferð… 🙂

Annars gengur lífið bara sinn vanagang hjá okkur skötuhjúunum og litlu skvísunni þrátt fyrir tímabundna dvöl á Álftanesi.  Að vísu neyðumst við til að sitja töluvert lengur í bíl á daginn en það er eiginlega bara ágætis tilbreyting frá hversdagslegu rútínunni, Elín Dögg kvartar ekki og hví skyldi ég þá gera það?  Kíkti aðeins á gang mála á Laugateignum og sýnist sem svo að þetta verði EKKI klárt fyrir helgina þannig að við verðum eitthvað áfram hérna á Álftanesinu, sem er ágætt því það væsir ekki um okkur hér og amman og móðursystirin hafa bara gaman af því að leika við þá stuttu… 😀

Þetta er svo mynd dagsins, segir meira en mörg orð…

It’s not how far you go, it’s how go you far…

Mikið svakalega var ég þreyttur í morgun!  Var við það að sofna á leiðinni á leikskólann og svo niður í vinnu þannig að ég sá mér þann kost einan vænstan að taka smá kríu hérna á sófanum og ég held að það hafi gert gæfumuninn.  Allavega er ég mun hressari núna og ekki spillir fyrir að framkvæmdastjórinn fór út í búð og keypti brauð, álegg og allskyns annað góðgæti sem ég er að kjammsa á í þessum skrifuðu orðum.  Matur er mannsins megin!

Held að ástæðan fyrir þessari þreytu sé aðallega tilkomin vegna flutningsins og að ég svaf ekki í rúminu mínu og á koddanum mínum í nótt.  Svo var sængin sem ég var með aðeins of heit og ég glaðvaknaði auk þess um hálf fimm, algjörlega upp úr þurru.  Ætla að fara snemma að sofa í kvöld, það er alveg á hreinu!  Þarf að vísu að vinna slatta og taka svo nokkra hlaupaspretti en það er heppilega hellingur eftir af deginum og tíminn því nægur, ish…

Kíkti á fund í Skátamiðstöðinni í Hraunbæ í gærkvöldi og fór þangað inn í fyrsta skipti sem er í raun merkilegt því húsið var opnað fyrst fyrir rúmlega átta árum síðan.  Hef kannski ekki átt neitt svakalega mikið erindi þangað svosem en gaman að koma þarna inn.  Á eftir henti ég mér svo í fótbolta með Ingva og félögum sem var fínt því ég var ekkert búinn að skottast í ræktina yfir daginn og hreyfingin því kærkomin.  Er auk þess að stefna á að stunda einhverskonar líkamsrækt 6 daga vikunnar og þá er fótbolti klárlega mun skemmtilegri hreyfing en að fara inn í tækjasal og lyfta lóðum… 😉

HM í handbolta á morgun, can’t hardly wait! 😀

I’m outta here!

Við hjónin (og gríslingurinn líka) neyðumst víst til að flytja á morgun.  Að vísu bara tímabundið fram að næstu helgi en samt.  Ástæðan er sú að fyrir nokkru síðan fór að gjósa upp þessi líka svaðalega stybba úr niðurfallinu inni á baði og þegar pípari mætti á svæðið sagði hann að vatnslásinn væri hreinlega bara ónýtur og það þyrfti að skipta um allt heila draslið.  Eigendur íbúðarinnar ákváðu þá að nýta tækifærið (í samráði við okkur, auðvitað) og láta taka baðherbergið í gegn í leiðinni.  Þannig að við höldum semsagt með okkar hafurtask út á Álftanes og komumst vonandi aftur til baka fyrir helgina og getum þá brugðið okkur á nýtt og glæsilegt baðherbergið… 😀

Við bræðurnir héldum uppteknum hætti, svikumst EKKI um í hlaupaáætluninni og hentum okkur ‘rólega’ 5 kílómetra í hádeginu.  Ég segi ‘rólega’ því að samkvæmt áætluninni áttum við að hlaupa mun hægar en vegna kulda ákváðum við að a) reyna að hlaupa það hratt að okkur myndi hlýna hraðar og b) hlaupa eins hratt og við gætum til að við kæmumst fyrr inn í hlýjuna aftur.  Þetta allavega hafðist en maður lifandi hvað það var kalt úti.  Það bætti auðvitað ekki úr skák að ég var ekki enn búinn að þrífa hlaupagallann síðan á mánudaginn í síðustu viku og hann var auk þess ennþá pínu svitablautur síðan á laugardag.  Enda var það mitt fyrsta verk eftir að ég kom heim áðan að henda honum í þvottavélina.  Veit eiginlega ekki hvort var verra, að fara í hálf rakan hlaupagallann og henda sér svo út í kuldann eða lyktin, sennilega bæði verra… 😉

Held að ég sé svo loksins farinn að læra af reynslunni því ég var sofnaður fyrir miðnættið í gær þrátt fyrir að konan væri á næturvakt.  Hef nefnilega átt það til að nýta tækifærið þegar hún er fjarri til að glápa á ‘monster’ myndir (eins og hún og tengdó kalla það) og vaki þá yfirleitt lengur en efni standa til.  Í staðinn var ég líka algjörlega úthvíldur í morgun þegar vekjaraklukkan vakti mig og Elínu Dögg sem svaf eins og lamb fram að því.  Hún sefur greinilega mun betur þegar móðirin er víðsfjarri, allavega hef ég ekkert lent í því að hún sé að vakna fyrir allar aldir á meðan Þórunn er ekki heima.  Nema að lyktin af hlaupagallanum virki eins og svefnlyf, aldrei að vita… 😉

Varð svo að henda þessu hérna inn, er með því skemmtilegra sem ég hef séð í lengri tíma!

So long, farewell, auf wiedersehen, adieu…

Við hjónin tókum okkur til áðan, eftir að skvísan var farin í rúmið, og rifum niður allt jólaskraut og hentum jólatrénu út á götu.  Alltaf svona ‘end-of-an-era’ tilfinning sem maður fær á sama tíma árlega, þegar birtan af jólaljósunum og -skrautinu víkur fyrir kulda og myrkri íslenska vetursins.  Ef maður væri ekki svona eldhress dags daglega væri þetta alveg tilefni til að leggjast í nett þunglyndi.  Heppilega erum við með flautuljós í stofunni sem við ætlum að nota óspart fram á sumar, annað er eiginlega ekki hægt.  Reyndar væri alveg spurning um aðra tillögu til stjórnlagaþings, að binda það í stjórnarskrá að jólaljós séu uppi allavega fram í miðjan febrúar.  Margt vitlausara til… 😉

Fengum óvænta heimsókn áðan þegar Jonni, Erla og Rakel Líf kíktu við.  Synd að svona óvæntar sunnudagsheimsóknir séu á hröðu undanhaldi, er eiginlega stórskemmtilegt.  Að vísu fengum við 30 mínútna viðvörun þannig að við höfðum tíma til að taka snögga tiltekt enda kofinn bókstaflega á hliðinni eftir stormsveipinn sem við Elínu Dögg er kenndur.  Ran(n)sa kíkti líka við með Söru Þuríði sem reyndar svaf alla heimsóknina.  Þær mæðgur fljúga svo aftur út til Danmerkur á morgun…

Hafði það loksins af að horfa á Inception í gær.  Fór nefnilega á föstudaginn og keypti Blu-Ray spilara fyrir fjölskylduna og kippti myndinni með í kaupbæti.  Ég veit ekki alveg hvað foreldrar mínir voru að þrugla, myndin er ekkert ruglingsleg, draumur inni í draumi inni í draumi (og jafnvel inni í draumi), sé ekki hvað er svona flókið!  Ætla nú ekki að ganga svo langt að segja að þetta sé besta mynd sem ég hef séð en hún var klárlega góð og hin besta skemmtun.  En ég skemmti mér líka vel yfir Sorcerer’s Apprentice á föstudagskvöldið þannig að kannski þarf ekkert svakalega mikið til að skemmta mér… 😉

Ákvað að henda þessu inn ef ske kynni að Þóra frænka dytti hérna inn.  Eiginlega fyndið hvað fólk er tilbúið að hlusta á Jenny McCarthy sem einhvern sérfræðing um bólusetningar og einhverfu, meðan hún var enn að fækka fötum hafði ég allavega smá virðingu fyrir henni, núna er hún bara sorgleg.  Svo var þessi grein (sem er sett inn fyrir þennan eina lesanda minn) ákaflega áhugaverð þó svo ástandið sé kannski ekki alveg eins slæmt hér á landi eins og í Bandaríkjunum.  Þetta er af svipuðum toga og í nettum nördastíl í þokkabót.  Hér er svo smá biflíugrín í tilefni hvíldardagsins.  Og við þessari fyrirsögn er eiginlega bara hægt að segja eitt: WTF!  Steve Jobs og Bill Gates, alltaf hressir.  Og svona í blálokin þá er hérna ágætis útskýring á því hvernig Disney segir ungum stúlkum að draumaprinsinn þeirra eigi að vera… 😀

What, me worry?

Fyrsta langa hlaup ársins var tekið fyrr í dag.  Þegar ég segi langt þá er það auðvitað afstætt, mér finnst þetta ekkert sérstaklega langt en aðrir eru kannski á öðru máli.  Til samanburðar má nefna að vegalengdin í dag, 8 kílómetrar, eru fjórðungur af lengstu vegalengdinni sem við bræður hlupum til æfinga síðasta sumar og um einn sjöundi af heildarvegalengd Laugavegsins.  Þannig að þó svo þetta sé ákveðinn sigur er þetta í raun bara ágætis byrjun.  Tíminn var líka ágætur, 49 mínútur og 50 sekúndur sem er, eins og áður, ekkert frábær miðað við bestu hlaupara en ágætt miðað við mig… 🙂

Í gærkvöldi var haldið í óvænta afmælisveislu fyrir Gumma Holm, þá á ég auðvitað við að ég hafi vitað af veislunni, hann gerði það hinsvegar ekki.  Holm var himinlifandi með þetta og þetta var fínt tækifæri til að hitta aftur félagana frá DK og spjalla um allt og ekkert, aðallega ekkert.  Tengdaforeldrarnir pössuðu fyrir mig á meðan en ég passaði mig vandlega á því að koma snemma heim enda annálaður fyrir að vera alltaf sá fyrsti til að yfirgefa partý-ið og ekki vill maður valda fólki vonbrigðum… 😉

Hentum okkur svo í kvöldmat út á Álftanes fyrr í kvöld sem var raunar einskonar kveðjumáltíð fyrir mágkonu nr. 2 og svila nr. 1.  Þau halda áleiðis til Amsterdam í fyrramálið og allsendis óvíst hvenær maður sér þau aftur í bráð þó Andri verði að vísu eitthvað að skottast til landsins af og til útaf Moses spilun og kynningum.  Óska ég þeim bara hér með góðrar ferðar og velfarnaðar í leik, starfi og námi í Niðurlöndum! 😀

Svo steingleymdi ég að minnast á það að frændfólk mitt átti afmæli á fimmtudag, þau Sigrún föður-systur-dóttir mín og Magnús Garðar móður-systur-dóttur-sonur minn og fá þau því hér með síð- en góðbúna afmæliskveðju frá mér með kærri þökk fyrir að vera boðið í afmælisveisluna (og já, þetta á að lesast með kaldhæðnistóni)… 😉

Everybody’s in the place…

Loksins kominn föstudagur og það meira að segja fyrsti föstudagur ársins 2011, hvorki meira né minna.  Ætla að njóta hans með því að fá tengdamömmu til að koma hingað eftir um klukkutíma (ish) og passa á meðan ég hendi mér á djammið (ish).  Hvert ferðinni er heitið er óvíst, hvernig ég kemst þangað er vitað (á bíl), hvað verður gert kemur á óvart og hvað ég verð lengi er sennilega auðsvarað (ekkert mjög).  Altént er markmiðið að reyna að skemmta sér, sýna sig og sjá aðra, svo við segjum bara sem allra, allra minnst… 😉

Var furðu lítið harðsperraður í morgun þegar ég vaknaði og svei mér þá ef öll hreyfingin í vikunni hafi ekki bara verið til góðs varðandi boltann í hádeginu.  Allavega var ég langt frá því að vera eins slappur og ég hafði búist við fyrirfram og setti meira að segja stórglæsilegt mark, klipping beint í skeytin.  En það er víst auðvelt að tala um þetta án myndrænna sannanna, bendi samt þeim sem áhuga hafa að spyrja Gimma, hann átti sendinguna sem skapaði gleðina.  Verst var að þetta var sennilega eini ljósi punkturinn á annars döprum bolta, allavega hvað mitt lið varðaði, því við skíttöpuðum og það illa…

Konan er á næturvöktum alla helgina þannig að við Elín þurfum að finna okkur eitthvað til dundurs sem er ekki of hávaðasamt, þ.e. ef við ákveðum að vera heima.  Annars ætlum við bræður að henda okkur átta kílómetra á morgun, verður eitthvað spes, sérstaklega ef veðurspáin um -5° og 11 m/s stenst.  Ætli maður endi ekki með að brjóta odd af oflæti sínu og hlaupa inni á hlaupabretti, eins og það er nú leiðinlegt.  Betra að deyja úr leiðindum en verða úti, ekki satt? 😉

Var svo að sjá rétt í þessu að síðasta einkunnin mín var að detta í hús, 9.5 í Saga stærðfræðinnar, úh yeah!  Þá er meðaleinkunnin það sem af er dottin í 8.92 og 30 einingar komnar í hús.  Bara 90 einingar eftir, spurning hvort maður nái að halda þessari meðaleinkunn… 😀

Here today, tomorrow maybe as well…

Fór að lyfta í hádeginu í dag í fyrsta skipti í ansi marga mánuði.  Það var bara helvíti fínt!  Byrjuðum á léttri upphitun og tókum einn kílómetra á hlaupabretti á hraðanum 12 km/klst, ágætt að prófa aðeins að keyra upp hraðann í leiðinni.  Lét Palla bróður alfarið um að stjórna lyftingunum sem voru allar framkvæmdar með fótunum.  Það verður sennilega mjög „fróðlegt“ að fara í fótbolta í hádeginu á morgun, geri ráð fyrir einhverjum eymslum í kjölfarið púlsins, en það er bara betra og herðir mann… 😀

Lára einkaþjálfari mætti svo í vinnuna til okkar og gerði á okkur greiningu.  Ég er víst of hokinn í öxlum og alls ekki með nógu góða rassvöðva, og hananú!  Þá er bara eina vitið að gera nóg af flugi og styrkja svo sitjandann í kjölfarið.  Hún ætlar meira að segja að búa til fyrir okkur „leiðréttingaræfingaáætlun“ sem við eigum að fylgja til að laga þessa „kvilla“ sem hún fann, fín þjónusta hjá skvísunni.  Hefði samt alveg þegið að heyra eitthvað jákvætt en ætli maður sé ekki bara svona slappur… 😉

Kíktum í kvöldmat til gömlu þar sem sá gamli er að fljúga til Kína í fyrramálið og kemur ekki aftur fyrr en um miðjan febrúar.  Fengum svínalundir og ís í eftirrétt sem var kærkomið eftir púlið, veitir ekki af að fá smá prótein og svo nóg af kolvetnum!  Annars er kallinn svo að flytja sig um set til Indónesíu þannig að þá hefur maður ástæðu til að fara þangað.  Verður þá nánast í Jakarta, ekki í einhverjum útnára í rassgati eins og þarna í Innri-Mongólíu, Jakarta er þó allavega stórborg, meira að segja á íslenskan mælikvarða…

Er annars búinn að fá þrjár einkunnir af fjórum, á von á þeirri síðustu á næstu dögum.  Einkunnirnar eru 8, 8.5 og 9 sem gefur mér meðaltal upp á 8.63 ef mið er tekið af einingavægi námskeiðanna.  Eiginlega helstoltur af sjálfum mér með þennan árangur og verð eiginlega illa svikinn ef ég fæ ekki 8.5-9 í þessum eina áfanga sem eftir er.  Svo taka við þrjú ný námskeið eftir tvær vikur og þau verða að sjálfsögðu tekin með sama trukki og þessi fjögur í haust sem leið.  Ef fram heldur sem horfir er ég á góðri leið með að ná markmiði mínu, verða best menntaði kennarinn sem aldrei hefur kennt, það er ekkert lítið… 😉

We are not alone anymore…

Eiginlega alveg ferlegt að vita af því að það er verið að fylgjast með því sem maður er að röfla, var eitthvað svo súrrealískt að skrifast svona á við sjálfan sig.  En hvað um það, það verður áfram haldið  sem aldrei fyrr (eða seinna (eða eitthvað))…

Við bræður hentum okkur í hlaup í hádeginu og höldum því áfram okkar striki.  Enn erum við bara í frekar stuttum vegalengdum en það á eftir að breytast mjög fljótlega.  Í dag voru lagðir að baki um fimm og hálfur kílómetri, þar af þrír þeirra á frekar hröðu tempo-i (eins og alvöru hlaupamenn segja víst), eða meira, hröðu tempo-i miðað við aldur okkar og fyrri störf, ætli alvanir hlauparar myndu ekki kalla hraðann hægt skokk.  Annars er hægt að fylgjast með framvindunni hér, ef svo ólíklega vildi til að lesandi minn (ath. eintala) hefði áhuga á því (sem er ósennilegt).  Við þurfum víst að vera duglegir að nota þessa hlaupadagbók þar sem við verðum að setja þarna inn öll hlaup frá og með 1. mars þegar við byrjum á hlaupanámskeiðinu, fram að því ætlum við bara að koma okkur í eins gott form og mögulegt er, ferlegt að mæta á svona námskeið og vera sá alslappasti (betra að vera næst verstur)…

Annars erum við feðginin ein heima í kvöld þar sem frúin er á næturvakt.  Að vísu er sú stutta þegar farin að sofa, borðaði vel af fiskibollum og kartöflum í brúnni sósu en var svo uppgefin eftir átið að það var ekkert annað í stöðunni en leyfa henni bara að fara í rúmið.  Hún hefur annars verið með einhverja magakveisu undanfarið með tilheyrandi tvistum, gæti haft einhver áhrif á það hversu þreytt hún er.  Ég stefni á að vinna í kvöld og horfa í leiðinni á Arsenal vs. City með öðru á meðan.  Eiginlega ferlega vont að horfa á svona leiki, maður veit ekki með hverjum maður á að halda, jafntefli sennilega besta niðurstaðan.  Að vísu er skárra að Arsenal verði meistari heldur en City, skárra, ekki betra… 😉

Og einmitt fyrir þennan eina lesanda minn er við hæfi að hafa smá „glens“ á trúarlegu nótunum, að þessu sinni beint upp úr sjálfri svörtu bókinni.  Hún er víst stútfull af svipuðu fjöri.  Ætli ríkiskirkjan myndi ekki segja að þetta eigi að lesa í samhengi, en í samhengi við hvað þá?!?  Svo er hérna smá nördagrín líka, fyrir þá sem skilja svoleiðis (aðrir eiga bara alveg að leiða þetta hjá sér). Og að lokum, fyrir Eika félaga, smá hvatning fyrir þá sem eru ekki alveg í kjörþyngd og vilja breyta því, þetta er greinilega hægt. Það eina sem þarf til að gera það er, tjah, að gera það… 😀

Tommy, can you hear me?

Ég er semsagt að gera ákveðna tilraun.  Hún er í því fólgin að ég ætla að athuga hversu langur tími líður þar til einhver uppgötvar að ég hafi tekið aftur til við bloggskrifin eftir ‘góða’ pásu frá því í byrjun síðasta sumars.  Ef vel tekst til þá sé ég framá að tala fyrir engum eyrum allt árið og þá er aldrei að vita nema maður fari að verða djarfari og meira krassandi eftir því sem líður á.  Nú, ef svo ólíklega vildi til að einhver fatti verknaðinn þá er spurning hvað maður gerir, jafnvel held ég bara áfram (nema ég sé sérstaklega beðinn að gera það ekki)… 😀

Við hjónin uppgötvuðum í desember að litla skvísan væri með eyrnarbólgu.  Það kom eiginlega alveg aftan að okkur þar sem hún hafði ekki sýnt nein merki í þá veruna, ekki haldið fyrir eyrun eða grenjað óeðlilega mikið þegar hún var lögð í rúmið.  Hinsvegar var hún sífellt að fá hita og oftast í kjölfarið á miklu og grænu hori.  Við fórum því að endingu með hana á barnalæknavaktina þar sem við fengum þessi tíðindi.  Hún fékk vænan skammt af sýklalyfjum sem virkuðu fínt á meðan varði en svo datt allt aftur í sama farið.  Við fórum því aftur og fengum annað og sterkara lyf en þá tóku við ný leiðindi, því Elínu Dögg finnst lyfið svo hrikalega vont að hún harðneitar að taka það sjálfviljug!  Eina ráðið er því að setja það í sprautu og sprauta í kinnina á henni og vona að hún fatti ekki að spýta því útúr sér aftur.  Spurning um heimilisofbeldi miðað við hvað hún reynir að streitast á móti, en þetta er henni víst fyrir bestu…

Það er ekki laust við að ég sé með örlitlar harðsperrur eftir hlaupin í gær, merkilegt nokk.  Að vísu var þetta í fyrsta skipti í næstum tvo mánuði sem ég fór markvisst út að hlaupa en þetta var það stutt að það hefði ekki átt að telja.  Svona er formið víst lélegt.  Annars hentum við bræðurnir okkur á fyrirlestur í gærkvöldi þar sem sigurvegarinn í kvennaflokki Laugavegshlaupsins 2010 sagði frá því hvernig hún undirbjó sig auk þess sem hún sagði stuttlega frá leiðinni sjálfri.  Í raun ekkert voðalega gagnlegt fyrir okkur bræðurna en hinn fyrirlesari kvöldsins var næringafræðingur og hann hafði töluvert mikið að segja sem hægt er að notfæra sér.  Þá er í raun bara eftir að tileinka sér það helsta og drattast loksins til að gera þetta rétt.  Það er, hins vegar, það eina í þessu sem er víst erfitt… 😉

Rakst svo á þetta, skemmtilegt, svo ekki sé meira sagt…