Archive | 2. janúar, 2011

Last day of debauchery…

Í dag er síðasti dagur í algjörri sukki og í tilefni af því skottaðist ég út í Hagkaup og keypti í eitt stykki rjómalagaða kjúklingasúpu auk þess sem ég kom við á nammibarnum.  Súpan var afskaplega ljúffeng, mæli hiklaust með þessu þegar fólk vill aðeins lyfta sér upp frá hversdagsmetinu, nammið þarf svo ekki að fjölyrða um.  Á morgun verður svo blásið til stífrar þjálfunar, það er nefnilega mín reynsla að maður verður að hafa áætlun sem maður getur svo svikist um að framkvæma til að geta talist algjör letihaugur… 😉

En grínlaust þá verður sett í gírinn á morgun og byrjað á hlaupagleðinni.  Er meira að segja búinn að setja upp plan fyrir næstu tvo mánuðina sem verður fylgt af alkunnri festu.  Palli bróðir var einmitt svo góður að gefa mér hálkuhlífar á hlaupaskóna í jólagjöf þannig að afsökununum fækkar stórlega, auk þess sem pabbi og mamma keyptu fyrir mig glænýja Asics Kayano í USA á dögunum.  Eina sem er eftir er að hlaða GPS úrið og fylla iPod-inn af eðaltónum og málið er dautt.  Tjah, fyrir utan að þurfa actually að hlaupa, en það hlýtur að reddast.  Í mars ætlum við bræðurnir svo að skella okkur á námskeið í Laugavegsfræðum til að tryggja að það sé bara eigin vanmætti um að kenna ef við náum ekki að komast í mark í þetta skiptið… 😉

Annars var dagurinn tekinn frekar rólega í dag.  Ég fékk að vísu að sofa út, sem var kærkomið í ljósi þess að ég asnaðist til að byrja að lesa Furðustrandir Arnalds Indriðasonar í gærkvöldi í stað þess að fara að sofa.  Það gerði það, auðvitað, að verkum að ég gat ekki hætt fyrr en ég var búinn með bókina!  Ágætis tölfræði það sem af er árs, tveir dagar búnir og ein bók lesin.  Spurning um að stefna á eina bók á viku, held að ég nenni allavega ekki að gera þetta á hverri nóttu!

Þegar ég svo loksins drattaðist á fætur í morgun þá hentum við okkur hjónin með skvísuna í bíltúr austur fyrir fjall þar sem við kíktum í hádegismat hjá gamla liðinu sem hafði farið í gærmorgun upp í sumarbústað.  Að sjálfsögðu mætti okkur þar drekkhlaðið borð af veitingum sem við þáðum af bestu lyst og eftir að við höfðum kvatt gömlu aftur renndum við á Selfoss og tókum stikkprufu á vatninu í sundlaug bæjarins.  Vatnið reyndist sæmilega heitt og nokkuð tært, allavega hafði sú stutta gríðarlega gaman af buslinu.  Hún svaf svo alla leið í bæinn, dauðþreytt eftir volkið…

Og að lokum, smá fésbókarvitleysa!