Archive | 1. nóvember, 2006

Það er komin vetrartíð…

Já, gott fólk, þið lásuð rétt, það er kominn vetur hér í borginni við sundin! Þessa stundina er hitinn við frostmark og fyrr í dag snjóaði (ekki grimmt þó en snjór engu að síður). Það var auðvitað dæmigert að veturinn í Kaupmannahöfn kæmi um leið og skipt var yfir í vetrartíma (sem gerðist einmitt aðfararnótt sunnudags). Þannig að nú er ekkert sem heitir, nú þarf að taka fram kuldagallann, lambhúshettuna og ullarvettlingana og festa á sig þrúgurnar áður en haldið er af stað út í ‘óveðrið’…

Fyndið með þennan vetrartíma. Mér reiknast til að við hjónin höfum upplifað þessa breytingu fjórum sinnum (þ.e. skipti frá sumartíma yfir í vetrartíma) og þrisvar sinnum höfum við upplifað breytingu til baka. Þeir sem eru glöggir í tölum sjá að við erum því þessa stundina í plús og eigum því inni einn góðan klukkutíma af lífi okkar einhversstaðar. Verst að maður getur ekki innheimt hann t.d. eftir að hafa horft á lélega bíómynd eða jafnvel leikinn sem ég spilaði á laugardag. Hefði það nú ekki verið tilvalið?!? 😉

Og í kvöld er svo gleðin sem beðið hefur verið eftir með öndina í hálsinum. Ég, gott fólk, er á leiðinni á Parken til að berja augum (og kannski einhverja stuðningsmenn líka, maður getur ekki verið minni bulla en hinir) stórliðið Manchester United þar sem þeir spila við FC Köbenhavn. Ekki er nokkur vafi á að þetta verður hin besta skemmtun, vona bara að ég komi til með að sjá eitthvað á völlinn út úr lambhúshettunni. Ætli verðirnir stoppi mig ekki af við innganginn, ekki myndi ég sjálfur hleypa inn vitleysingi á þrúgum…