Sheesh!

Eftir næstum þrjá og hálfan mánuð af daglegum færslum þá datt sko aldeilis botninn úr þessu hjá kallinum, frekar lélegt.  Og ekki bara í einn dag heldur næstum því heila viku, meira bullið  á manni.  Þá er bara spurning hvar maður á að byrja, það hefur bókstaflega ALLT gerst síðan á laugardaginn… 😀

Fyrst kom út blessuð hrunaskýrslan og maður gerði auðvitað ráð fyrir tilheyrandi fjaðrafoki í marga daga og vikur á eftir.  En nei, nei, það leið rúmlega sólarhringur og þá kom bara annað eldgos og nú öllu kröftugra og þaggaði niður alla hrunaskýrsluumræðu med det samme!  Núna er kreppan bara gleymd og mál málanna eru flugtafir víða um heim.  Magnað hvað athygli fjölmiðla og almennings helst stutt við í einu á sama efninu.  Að vísu er sennilega rétt sem Bogi Ágústsson sagði, eldgos er miklu sjónvarpsvænna heldur en umfjöllun um pappír, get svosem tekið undir það, töluvert stórbrotnara myndefni… 😉

Annars hefur þetta verið frekar skrýtin vika.  Mánudagsmorguninn fór allur í dönskukennslu sem gekk alveg furðu vel enda komst ég fljótt að því að miðað við nemendurna hefði ég allt eins getað verið innfæddur Dani, svo mikill var getumunurinn.  Var allavega ekkert rekinn á kaf með neitt og gat skautað framhjá því sem ég var ekki alveg klár á eins og alvöru kennara sæmir.  Datt bara strax í kennaragírinn eins og ég hefði aldrei gert annað.  Þetta var eiginlega alveg ótrúlega gaman og ég var svo plataður aftur daginn eftir í tveggja tíma samfélagsfræðikennslu.  Spurning hvort þetta fari að verða fastur liður að maður hendi sér í kennslu endrum og eins, allavega myndi ég ekkert fúlsa við því.  Þriðjudagurinn fór svo allur í vinnu fyrir Vinnuskóla Reykjavíkur sem opnaði skráningu daginn eftir, var að til að ganga fjögur aðfararnótt miðvikudagsins við að klára það dæmi.  Tók að vísu smá pásu á þriðjudagskvöldið og henti mér með Runa og Jonna á sushigerðarnámskeið í Turninum, það var eiginlega bara brilliant… 🙂

Nýtti tækifærið þegar ég sótti um framhaldsnámið á dögunum og lét prenta út auka eintak af einkunnunum mínum úr KHÍ og fór með þær í Menntamálaráðuneytið.  Hafði semsagt loksins af, næstum átta árum eftir útskrift, að sækja mér leyfisbréfið sem löggiltur kennari.  Kannski ekki seinna vænna í ljósi þess að 2011 verður maður að hafa 5 ára nám á bakinu til að fá leyfið, ég semsagt rétt slapp í þetta skiptið.  Annars er ég búinn að senda inn umsókn í framhaldsnámið og geri ekki ráð fyrir öðru en að það hefjist svo næsta haust, finnst allavega mjög ólíklegt að mér verði synjað um inngöngu… 🙂

Hef svo verið undanfarna þrjá daga niðri á Loftleiðum á skrifstofu Icelandair að vinna.  Gaurinn sem ég er að vinna fyrir þar vildi endilega að ég sæti hjá þeim nokkra daga og ég er ekki frá því að það sé bara nokkuð notalegt, svona fyrir utan það að ég get ekki sótt póst nema í gegnum vafra og get hvorki haft kveikt á iChat né MSN.  En maður lætur sig hafa það, hef líka náð að gera helling fyrir þá á meðan þegar ekki er sífellt verið að trufla mig með einhverju öðru.  Svo spillir ekki fyrir að mér hefur verið boðið í mötuneytið hérna í hádeginu og það er eiginlega eins og að fara út að borða á fínum veitingastað, margréttaðar máltíðir og lærðir kokkar í eldhúsinu.  Ekki skrýtið hvað allir eru feitir hérna miðað við hvað maturinn er góður.  Annars er allt á haus á skrifstofunni hjá þeim, síminn rauðglóandi með símtölum frá fólki að spyrja frétta um hvenær eldgosið hætti og hvort það verði ekki örugglega hætt þennan og þennan daginn.  Held að starfsfólkið hérna hafi ekki geð í sér til að segja að síðast þegar gaus þarna hafi gosið staðið í næstum tvö ár, myndi sennilega lítið gera til að auka á ‘gleði’ innlyksa ferðalanga… 😉

Auglýsingar

2 responses to “Sheesh!”

  1. Bluebottle says :

    Sýnist botninn hafa orðið eftir suður í Borgarfirði

  2. Þóra Marteins says :

    Mér líka…

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: