Spurning um að henda í smá naked…?

Það brutust víst út gríðarleg fagnaðarlæti á Alþingi í dag þegar ljóst var að mál málanna þar var til lykta leitt.  Þá er ég að sjálfsögðu ekki að tala um Icesave eða tjaldborgina um heimilin.  Nei, nei, Alþingi fagnaði því núna er það komið í landslög að ekki má lengur dansa nakinn fyrir framan aðra, hvorki gegn gjaldi né bara af einskærri góðmennsku.  Veit samt ekki alveg hvort þetta á þá líka við um einkasýningar inni á heimilum, geri nú samt ráð fyrir að svo sé ekki.  En þetta er ákaflega gleðilegt, til þess að sporna gegn mansali og vændi (sem er þegar bannað skv. lögum) þá er einmitt rétta leiðin að banna bara fleiri hluti sem eru ekkert endilega tengdir.  Veit ekki með ykkur en mér finnst þetta óttalega hæpið.  Ætli internetið verði ekki bara bannað næst, þar er jú víst hægt að finna barnaklám og sitthvað fleira sem er bannað.  Allavega mætti með svipuðum rökum banna bara nánast alla hluti.  Spurning hvort það ætti ekki að nýta þetta í eitthvað gagnlegt og banna t.d. útrásarvíkinga, það væri þó allavega öllum til góðs! 😀

Við Elín erum ein í kotinu sem stendur, móðirin brá sér af bæ til að kíkja á einhvern útsölumarkað í Skeifunni.  Magnað hvað orðið ‘útsala’ virkar vel á konur, mý á mykjuskán, er það of gróf samlíking?  Annars er Elín með bölvuð leiðindi, vill ekki liggja á leikteppinu, vill ekki vera í ömmustólnum, vill ekki vera í tripp-trapp stólnum.  Vill bara góla og vera með hávaða, föðurnum til mikillar gremju.  Spurning um að senda ósk um það til Alþingis að láta banna þetta líka, væri sennilega til góðs fyrir allar barnafjölskyldur í landinu, ekki amalegt að geta tjaldað til landslögum þegar börnin byrja að láta illa, o, sei, sei, nei! 😀

Í dag er svo letidagur vikunnar hjá mér þannig að það verður stíf æfingaáætlun það sem eftir lifir degi.  Byrja á því að leggjast í stólinn fyrir framan sjónvarpið fram að mat.  Borða svo eitthvað og leggst að því loknu aftur í stólinn þar til kominn er tími á lokaæfingu dagsins en hún fer fram í láréttri svefnstellingu inni í svefnherbergi.  Spurning hvort maður hafi orku og úthald í alla þessa ‘leikfimi’… 😉

Færðu inn athugasemd