Fimm+ vikna

Update: Gleymdi alveg að óska Palla bróður og ömmu Guðrúnu til hamingju með daginn í dag, maður getur nú ekki munað eftir öllu… 😉

Í dag er nákvæmlega vika þangað til við fáum gáminn sem sér um að flytja allt draslið okkar til Íslands.  Daginn eftir, 14. október, mun svo litla fjölskyldan halda af Danmörku brott með vél Icelandair til lands elds og ísa þar sem ráðgert er að lenda ekki seinna en 20:55 að staðartíma.  Ég fékk einmitt bílinn hans Baldvins lánaðan í gær til að kaupa kassa, loftbóluplast, límband og merkitúss, kann honum miklar þakkir fyrir hjálpina.  Keypti að vísu bara 30 kassa í þetta skiptið, er nokkuð viss um að sú tala á sennilega eftir að tvöfaldast áður en yfir lýkur.  Þórunn byrjaði einmitt áðan að setja fyrsta draslið í kassa og er þegar búin að fylla fjóra með geisladiskum, DVD myndum og bókum, fljótt að koma.  Allavega þarf ég svo nokkrar hendur til aðstoðar þegar gámurinn kemur þannig að allir sem eru á lausu á milli 10 og 13 (ish) næsta þriðjudag eru vinsamlegast beðnir að mæta á Bremens og aðstoða við að losa Danmörku við okkur… 😉

Fórum í gær með skvísuna í fimm vikna skoðun sem jafnframt var síðasta skoðunin sem skvísan fer í hérna í Danmörku.  Hún hefur þyngst slatta, er orðin rúmlega fimm kíló en hefur ekki lengst jafn mikið, er semsagt orðin lítil og búttuð, alveg eins og faðirinn.  Allt var í góðu lagi í skoðuninni, hún hafði það meira að segja af að spræna yfir læknabekkinn, það hlýtur bara að vera jákvætt.  Hún er auk þess byrjuð að koma með allskonar ný og skemmtileg hljóð, semsagt eitthvað meira en bara væl og grenj, allt afskaplega spennandi.  Að vísu er hún stundum pínu erfið að fara að sofa á kvöldin, gólar og grenjar eins og stunginn grís ef við leggjum hana frá okkur.  Það tekur óneitanlega töluvert á hendur og axlir og Þórunn brá því á það ráð að kaupa svokallað ‘sling’ sem hún getur reyrað skvísuna inní utanum sig.  Þær sitja einmitt þannig í þessum skrifuðu orðum, skvísan hæstánægð enda steinsofandi í þessari stellingu…

Annars eru síðustu dagar búnir að fara að mestu í að segja upp allskonar áskriftum hérna í Danmörku, símanum, netinu, GSM, sjónvarpinu o.s.frv.  Fáum meira að segja endurgreitt frá sumum mismuninn ef við vorum búin að greiða fram í tímann, þjónusta sem maður myndi væntanlega aldrei fá á Íslandi.  Tók mig svo til og pantaði síma og net á Íslandi og ef allt gengur eftir þá verður það vonandi bara tilbúið til notkunar þegar við mætum í næstu viku, aðeins styttri biðtími en þessar standard 4-6 vikur hérna í DK.  Annars erum við öll þrjú bara hress, ekki mikið um vansvefn (helst hjá Þórunni þá) og almenn ánægja með lífið.  Verð nú að viðurkenna að það er kominn örlítil tilhlökkun í okkur að vera að flytja, ekki það að flutningurinn sjálfur er hundleiðinlegur en alltaf gaman þegar maður upplifir ‘an end of an era’… 😀

Og að lokum sendi ég svo baráttukveðjur til hennar Þóru frænku sem verður víst sett í gang á morgun ef ekkert er búið að gerast fyrir það.  Bæði öfunda hana og vorkenni í senn… 😉

Auglýsingar

3 responses to “Fimm+ vikna”

  1. Guðrún Lilja says :

    Gleymir að minnast á að bróðir þinn og amma eiga afmæli í dag, kútur. Varstu kannski búinn að gleyma því í öllu amstrinu ? ;o)

  2. laddi says :

    Nei, nei, þykir bara ekki nógu merkilegt 😉

  3. Þóra Marteins says :

    Takk fyrir baráttukveðjurnar (held það muni ekki veita af 😉 ) og góða ferð heim 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: