Föstudagskvöldsleiðindi…

Klukkan er 22:55.  Ég sit inni í stofu því ég get ekki sofnað (Þórunn löngu sofnuð, btw).  Er bara ekki nógu þreyttur.  En mest er það þó vegna þess að gaurinn á hæðinni fyrir neðan er með partý, aftur.  Og til að gera þetta enn ‘betra’ þá er hann núna með sama lagið á repeat.  Sem væri kannski í lagi ef 1) lagið væri skemmtilegt og 2) ef þetta væri ekki sama lag og hann var með á repeat í rúmlega klukkutíma í gærdag líka!  Verð kannski að útskýra þetta aðeins betur svo fólk fari ekki að halda að ég sé að tala um Nonna niðri (gælunafnið sem við gáfum fávitanum sem bjó (athugið, þátíð) hérna fyrir neðan) því hann er fluttur út og einhver enn yngri og skemmtanaglaðari bjáni fluttur inn í staðinn.  Svo sannarlega úr öskunni í eldinn.  Og til að kóróna leiðindin þá er fólkið á hæðinni fyrir ofan með partý líka!  Fáum semsagt partý í 100% víðóma ‘gæðum’ þessa stundina, alltaf að græða…

Hvað er annars búið að gerast síðan síðast?  Já, mikið rétt, fór og hitti axlarsérfræðinginn aftur í síðustu viku.  Hann byrjaði á að spyrja mig hvort öxlin væri skárri og þegar ég svaraði sem var, að öxlin væri jafn slæm og áður þá sagði hann, orðrétt: „Gott, því að miðað við þessar myndir sem ég fékk sendar þá eru engar líkur á því að þetta lagist af sjálfu sér.“ (hann sagði þetta að vísu á dönsku…)  Hann útskýrði svo fyrir mér að ég væri með rifið liðband í öxlinni og að sökum þess hvað ég væri ungur (gaman að heyra það) þá mælti hann með því að ég færi í ‘viðgerð’ sem fyrst.  Ég fékk svo í gær bréf frá Frederiksberg hospital um að ég ætti að mæta þar 25. maí í forskoðun, fer svo í aðgerð einhverjum vikum eftir það.  Þannig að, þetta var semsagt ekki bara eintómt væl í mér, jeiiiiii…. 😉

Hvað meira hefur á daga okkar hjónanna drifið?  Já, ég fór á skíði í Svíþjóð, nánar tiltekið til Isaberg sem er staðsett einhversstaðar í því annars ömurlega landi.  Verð að viðurkenna að ég hef komið á betri skíðasvæði.  Satt best að segja er þetta sennilega á botn einu af þeim skíðasvæðum sem ég hef komið á.  Þar fyrir utan þá var snjórinn svo blautur að þetta var nánast eins og að renna sér í vanillubúðingi.  En þrátt fyrir það var þetta hin besta skemmtun.  Við Eiki, Gummi Þór og Jói Solbakken höfðum það allavega helvíti notalegt saman þessa helgi með tilheyrandi karlrembuhúmor, vindsleppingum, bjórdrykkju (þeir aðallega) og almennu fjöri.  Þó svo ég mæli alls ekki með þessu skíðasvæði við nokkurn mann þá mæli ég hinsvegar eindregið með fleiri svona ‘karlaferðum’, þær eru endalaus uppspretta gleði, hláturs og góðra minninga… 😉

En hvað er svo annars að frétta af okkur hjónunum?  Jú, í fréttum er það einna helst að Þórunn er núna í fæðingarlækningum sem er sérlega kómískt í ljósi núverandi ástands hennar.  Hún er einmitt daglega á Herlev hospital (sami spítali og ég fór í skannið góða um daginn) að fylgjast með og hjálpa til við útunganir af ýmsum toga, eðlilegum sem og þeim sem fara fram á svokölluðu keisarasniði.  Hún ætti allavega að vera nokkuð nærri lagi um það hvernig þetta allt fer fram, enda er hún ansi dugleg að uppfræða mig um það sem fyrir augu, eyru og hendur ber.  Hún er líka að mestu laus við ógleðina sem er sérlega gleðilegt, fyrir hana allavega, fann svosem lítið fyrir því sjálfur…

Ég spilaði svo (sennilega) minn síðasta handboltaleik á þriðjudaginn, geri allavega ekki ráð fyrir að stunda þetta mikið eftir að við flytjum heim.  Allavega er ég ekkert að drukkna í tilboðum frá íslenskum liðum sem vilja ólm og uppvæg fá að njóta ‘krafta’ minna í baráttunni næsta vetur, þeirra missir bara.  Var allavega í banastuði í leiknum og varði nokkrar kúlur.  Verst að það dugði ekki til, við töpuðum með einu marki eftir hörku baráttu.  Það er þó bót í máli (fyrir mig, allavega) að það var álit manna að ég hefði staðið mig það vel að ég var valinn maður leiksins.  Ágætt að enda handboltaferilinn bara þannig, ekki satt? 🙂

Svo er vorið, að öllum líkindum, mætt í Danmörku.  Já, rétt eins og undanfarin ár þá er hérna frost og kuldi og svo einn góðan veðurdag vaknar maður upp við sólskin, hita og fuglasöng og þá, búmm, vorið bara mætt.  Það gerðist bara núna í þessari viku og samkvæmt veðurspám verður þetta viðvarandi ástand með síhækkandi hita og hækkandi sól.  Þetta kemur sér sérlega vel þar sem útiæfingarnar í fótboltanum eru einmitt nýfarnar af stað.  Sennilega fátt sem jafnast á við það að komast aftur út á grasvöll og sparka í kringlóttar tuðrur.  Svo er líka fyrsti leikur tímabilsins á sunnudaginn og það á móti engum öðrum en samlöndum okkar sem búa á Kagsaa.  Ætti að verða fín skemmtun, spurning hvort það þurfi samt ekki að gefa dönskum dómara leiksins róandi áður en herlegheitin byrja, er sennilega ekki vanur því að sjá tvö íslensk ‘víkinga’lið spila alvöru karlmannsfótbolta.  Ekkert blóð, ekkert brot… 😉

Klukkan er 23:20.  Læt þetta nægja í bili.  Ætla að reyna að leggjast aftur upp í rúm og sjá hvort ég geti ekki sofnað.  Verður samt allt annað en auðvelt.  Gaurinn á neðri hæðinni enn að blasta tónlist….. og enn er það sama óstjórnlega leiðinlega lagið!!!

Update:  Klukkan er 23:45.  Held að ég sé búinn að fatta hvað málið er.  Gaurinn á hæðinni fyrir neðan er áhugatónskáld.  Finn enga skýringu á því af hverju hann er ENN AÐ SPILA ÞETTA ÓGEÐSLEGA LAG aðra en að hann hafi samið viðbjóðinn sjálfur!!!! 😡

Auglýsingar

2 responses to “Föstudagskvöldsleiðindi…”

  1. Jonni says :

    Þú ert Mr. Heckles!! 😉

  2. laddi says :

    „You’re disturbing my oboe practice…“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: