Fimmtudagsfiðringur

Fór í gærmorgun, loksins, í MRI skannið á öxlinni.  Lagði af stað árla morguns áleiðis upp í Herlev á samnefndan spítala.  Fann fljótlega MR deildina og eftir stutta bið var ég kallaður inn í herbergi sem var merkt ‘segulmagnað’ í bak og fyrir.  Þar tók á móti mér ansi viðkunnalegur gaur sem útskýrði þetta fyrir mér, lét mig fara úr að ofan og lét mig svo fara í of stóran wife-beater.  Svo kom inn ansi geðug miðaldra kona, sem var víst læknirinn, sem lét mig leggjast niður á vinstri hliðina á bekk til að hafa greiðan aðgang að hægri öxlinni.  Svo skoðaði hún með ómtæki til að finna hárréttan stað til að troða nál inn í öxlina á mér til að sprauta inn contrast vökva.  Það var ekki beint vont, meira svona helóþægilegt.  Þurfti í fyrsta lagi að liggja grafkyrr og svo þegar nálin var kominn inn fann ég óþægilega mikið fyrir því hvernig vökvinn seitlaði inn í kerfið.  Furðulegast var samt þegar læknirinn brá sér frá að sýsla eitthvað og skyldi sprautuna bara eftir dinglandi í öxlinni, spes… 😀

En svo var mér hent í tækið fyrir skannið sjálft.  Fékk þá að leggjast á bakið, hægri höndin skorðuð af og mér svo smokrað inn í risa apparat sem leit eiginlega út eins og tvö hamborgarabrauð þar sem ég var kjötið.  Fékk á mig iðnaðarmannaheyrnartól og svo sagt að liggja kyrr í um 30 mínútur (sem er eitthvað sem ég er klárlega atvinnumaður í).  Svo byrjaði græjan með allskonar smelli og skruðninga.  Oft myndaðist helvíti skemmtilegur taktur í þessu, pínu europop fílingur.  Náði næstum því að sofna, meira að segja.  Svo var þetta bara búið og ég fór aftur heim á Bremens.  Eitthvað hefur þetta verið skrýtinn kokteill sem ég fékk í öxlina því í gærkvöldi var ég gjörsamlega að drepast og átti erfitt með að hreyfa höndina, er að vísu skárri í dag og er allur að koma til.  Fer svo aftur til læknisins 25. mars og fæ þá endanlega úr því skorið hvort ég sé varanlega púten eða ekki… 😀

Fórum í morgun að hitta ljósmóðurina í fyrsta skipti.  Hjóluðum saman niður á Jordemodercentret sem er staðsett hérna rétt hjá okkur.  Þegar við vorum svo kölluð inn heyrði ég strax að það var eitthvað undarlegt við það hversu vel henni tókst að bera fram nafnið ‘Þórunn’.  Kom í ljós að ljósmóðirin okkar er íslensk, sem er alls ekkert verra.  Fengum þessar hefðbundnu spurningar og svo lét hún okkur fá allskonar bæklinga og dót.  Svo fann hún hjartsláttinn sem var sterkur og góður (enda af hjartsterki fólki komið).  Semsagt allt í himnalagi og næsta skoðun verður eftir rúmlega mánuð á Hvidovre Hospital…

Þarf svo að fara að hlaupa á eftir, er kominn með nýtt hlaupaplan sem riðlaðist auðvitað út af axlarruglinu í gær.  Vil allavega koma í veg fyrir því að lenda í þessu næst þegar ég fer í eitthvað alvöru hlaup… 😉

Auglýsingar

One response to “Fimmtudagsfiðringur”

  1. Guðrún Lilja says :

    1. apríl á morgun 😉

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: