Ligeglad

Frá því ég var smápatti hef ég vitað að Danir væru svo ligeglad, allavega var maður stanslaust að heyra það þegar Dani bar á góma. Velti því svosem ekkert sérstaklega mikið fyrir mér, en eftir næstum sex ár í ‘sambúð’ með þeim þá áttar maður sig betur á því í hverju þetta ligegladhed Dananna er fólgið án þess þó að fá fullkomið ‘svar’. Í gær held ég að ég hafi loksins fengið svarið, og það var ekki fallegt…

Við Þórunn eigum sjónvarp sem kom með okkur hingað út frá Danmörku. Þetta er í raun gamla sjónvarpið sem mamma og pabbi áttu og var keypt vorið 1991 í gömlu Radíóbúðinni í Skipholti, man vel eftir því þegar við pabbi fórum og keyptum gripinn sem var nýjasta nýtt á þeim tíma. Tækið hefur staðið sig ákaflega vel og er enn á lífi, þrátt fyrir ónothæfa fjarstýringu og það smáatriði að ekkert hljóð heyrist úr því. En við ákváðum samt að það myndi enda líf sitt hérna í DK og fengi því ekki að flytja með okkur aftur til Íslands næsta sumar. Í framhaldi af því var tekin sú pólítíska ákvörðun að kaupa nýtt sjónvarp og fórum við á stúfana að finna verðugan arftaka…

Ég tók mig því til og kynnti mér úrvalið og verðið á þeim tækjum sem mér þóttu ‘verðug’, enda klárt mál að ég sætti mig ekki við eitthvað drasl í þessum efnum. Eftir smá samningaviðræður við frúnna varð lendingin sú að kaupa 40 tommu (já, ég veit, ég er crazy) Sony Bravia sjónvarp sem við fundum ódýrast á netinu hjá fyrirtæki sem heitir getmore.dk. Í fyrradag, rétt fyrir klukkan sex, pantaði ég sjónvarpið hjá þeim, borgaði á netinu og fékk stuttu seinna tilkynningu um að greiðslan hafi verið móttekin og stuttu eftir það aðra tilkynningu sem tilkynnti mér að pakkinn væri kominn til PostDanmark og yrði sendur til mín á morgun. Með fékk ég tengil á síðu PostDanmark þar sem ég gat fylgst með því hvar pakkinn væri staddur. Frábær þjónusta, eða það hélt ég allavega, en…

Í gærmorgun kíki ég svo á þennan pakkarekjara hjá PostDanmark og sé að pakkinn hefur verið endursendur fyrr um morguninn. Skildum lítið í því og úr varð að Þórunn hringdi í póstinn til að forvitnast. Fékk að vita það að pakkinn hafi verið rangt merktur vegna þyngdar hans og eitthvað álíka og fyrir vikið endursendur á sendanda. Gott og vel, mistök geta orðið í þessu eins og öðru, en…

Þórunn hringir svo í getmore.dk til að heyra hvenær þeir muni senda það af stað aftur. Nei, nei, það virkar víst ekki þannig. Núna er varan víst ‘endursend’ í þeirra bókhaldi og fer þá í ‘endursent’ ferlið sem þýðir að þegar þeir fá tækið til baka til sín, þá fer það aftur á lager, við fáum svo endurgreitt nokkrum dögum síðar og síðan þurfum við bara að panta tækið aftur! Þórunn reynir að útskýra fyrir þeim að við viljum ekkert fá endurgreitt, enda séum við ekki að endursenda tækið. En það er sama hvað tautar og raular, svarið er alltaf það sama: „Svona er þetta bara!“ Þórunn talar við þrjá þjónustufulltrúa og allir segja þeir það sama, ekkert sem þeir geta gert, við megum ekki koma og ná í tækið, þeir geta ekki sent pakkann af stað aftur. Biðjast ekki einu sinni afsökunar á þeirra eigin mistökum og sýna heldur engan vilji til að reyna að leysa málið á farsælan hátt…

Á endanum hringi ég og tala við einhvern af þessum þremur þjónustufulltrúum, er harður á því að ef ég get ekki fengið tækið þá vilji ég fá peninginn endurgreiddan strax. Nei, nei, það er ekki heldur í boði, þeir hafi 30 daga til að endurgreiða mér samkvæmt einhverjum dönskum lögum og bla bla bla bull og þvæla og væl. Segir að vísu að það verði aldrei 30 dagar, miklu frekar 3-5 dagar. Að endingu bið ég að fá að tala við yfirmann sem kemur í símann eftir nokkra stund…

Sá aðili var greinilega kominn inn í málið og búinn að setja sig í rifrildisstellingar. Byrjaði á því að segja mér nákvæmlega það sama og hinir sem við höfðum talað við og vildi ekki hlusta á neitt af því sem ég var að reyna að segja. Það var bara engu tauti fyrir hann komið. Ég mátti ekki sækja sjónvarpið sem ég var búinn að borga fyrir og hann sagði berum orðum að ég fengi ekki peninginn í dag, yrði bara að bíða eins og aðrir. Nákvæmlega á slaginu fjögur þá segir hann svo: „Ég má ekki vera að þessu, bless!“ og skellir svo á mig!!! Þeir sem þekkja mig vita að ég verð nánast aldrei reiður, en þarna bókstaflega sauð á mér, eðlilega…

Við Þórunn vitum í raun ekkert hvað við getum gert. Það getur vel verið að þeir hafi lögin sín megin í þessu. Allavega skrifuðum við bréf til fyrirtækisins til að lýsa gremju okkar, fáum sennilega aldrei svar við því. Vonum bara að við fáum peninginn til baka sem fyrst. Sjónvarpið verður svo keypt annars staðar…

En eitt höfum við allavega lært af þessu. Næst þegar einhver segir að Danir séu svo ligeglad, þá vitum við núna nákvæmlega í hverju það er fólgið…

Auglýsingar

6 responses to “Ligeglad”

 1. Þóra Marteins says :

  Þetta hljómar nú samt alveg ferlega sænskt. Ég lenti alveg nokkrum sinnum í svona brjálæðislega ferköntuðum samskiptum við Svíalingana á sínum tíma. Ætli Svíarnir séu þá líka ‘ligeglad’ ? 😉

 2. laddi says :

  Svíar, Danir. Potato, Patato…

 3. Oddur says :

  Maður er nátturlega búinn að komast að því að „ligeglag“ felst ekki í því að vera léttur og skemmtilegur eins og margir Íslendingar halda!! Heldur að vera nákvæmlega slétt sama um allt og alla!! Skíta Danir!!

 4. Jonni says :

  Já, ég þoli ekki Dani!! Ekki hálf-Dani heldur!! 😉

 5. Keno Don Hugo Rosa says :

  Látið ekki svona. Danir eru svo skemmtilegur og fullir af þjónustulund. Sérstaklega þeir sem búa í Kaupmannahöfn.

 6. Ingvi Rafn says :

  Það er eitt sem ég er búinn að læra af að búa þarna úti. Svona er þetta bara hjá baununum. Það tekur allt tvær til fjórar vikur, maður þarf að fara á fjóra staði til að sækja um eitthvað og staðirnir eru aldrei opnir á sama tíma og bara nokkra tíma á dag og ef eitthvað klikkar þarf að fara í gegnum allt ferlið aftur. Svona eru danirnir ligeglad. Svo verða Danir ekkert pirraðir þegar þetta kemur fyrir þá, því þeir eru svo ligeglad.. Ég sakna þess svo mikið að ég er að flytja aftur út á morgun. Vi ses hejhej

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: