Að taka pólinn í hólinn…

Byrjum á fréttum af því sem allir hafa verið að bíða eftir. Já, ég er orðinn frískur, var risinn aftur úr rekkju daginn eftir harmakveinið mikla í síðustu færslu og fór meira að segja út og horfði á þrjá fótboltaleiki, þann fyrsta hjá IF Guðrúnu, þann næsta hjá Celtic og svo einn heima hjá Baldvin þar sem United tók á móti Arsenal. Fyrsti leikurinn endaði 1-1, sá næsti með 2-4 tapi Celtic og United unnu svo Arsenal 2-1 þannig að árangur dagsins var ca. 44%, þ.e. 4 stig af 9 mögulegum. Hefði sennilega verið 100% hefði ég spilað fyrstu tvo en vandi er um slíkt að spá… 😉

En allavega. Síðasta vika var bara ósköp venjuleg, æfingar hjá Celtic með tilheyrandi hlaupum, svita og harðsperrum og svo róleg æfing hjá Guðrúnu inni á milli. Á föstudag áttum við (IF Guðrún) svo leik í bikarnum á móti Rauðu djöflunum og ég hafði mikið fyrir því að fylla 14 manna hóp sem mætti allur galvaskur klukkan tíu um morguninn (föstudagurinn var almennur frídagur í Danmörku btw), tróð sér í gallann og fór út að hita. Ekkert bólaði þó á andstæðingnum og svo fór að lokum að dómarinn flautaði leikinn af eftir að hafa beðið í fimm mínútur eftir því að Djöflarnir mættu á svæðið. Auðveldur 3-0 sigur því staðreynd þar sem ég skoraði öll mörkin… 😉

Á laugardaginn var svo fyrsti leikurinn minn fyrir Celtic (b-liðið að vísu) á móti einhverjum Dönum (man ekki hvað liðið heitir). Var settur á vinstri kantinn sem er ágætis tilbreyting frá bakverðinum, verð ég að viðurkenna. Komst þó að því þegar leið á leikinn að kantmenn þurfa að hlaupa töluvert meira en bakverðir og ég var orðinn nokkuð þreyttur þegar fór að líða á fyrri hálfleikinn. Fékk eitt sannkallað dauðafæri sem markvörðurinn náði á einhvern undraverðan hátt að verja, var farinn að fagna í huganum og alles. Fékk smá pásu í hálfleik og kláraði svo leikinn á miðjunni. Glöggir taka kannski eftir því að ég fjalla í raun ekkert um leikinn sjálfan og það er ástæða fyrir því, við töpuðum nefnilega, 3-1. Vorum samt alls ekki verri aðilinn í leiknum, vorum bara ekki að skapa nein færi af viti (fyrir utan markið og færið mitt) og því fór sem fór…

Eftir leikinn var skundað heim í sturtu, skyrtan straujuð og buxurnar pressaðar auk þess sem andlitið var sett upp því leiðin lá í Kristjaníu (af öllum stöðum) á veitingahúsið Spiseloppen þar sem við áttum pantað borð ásamt Ragnhildi og Bruno og Guggu og Björgvini. Tilefnið var 29 ára afmæli Rönnsu (já, með tveimur n-um) og hún fékk að velja staðinn. Maturinn var stórgóður og mæli ég hiklaust með þessum stað fyrir þá sem vilja góða og vel útilátna máltíð á sanngjörnu verði. Ekki láta umhverfið (þ.e. fyrir utan húsið og ganginn upp) skelfa ykkur samt, er ekki beint ‘classy’ en staðurinn sjálfur er hinsvegar ágætur, sátum allavega í góðu yfirlæti langt fram á kvöld. Eftir matinn hjóluðum við svo niður í bæ og hentum okkur á Copenhagen Jazzhouse þar sem drykkir voru pantaðir og dansskórnir notaðir til hins ýtrasta…

Eftir allan þennan fótbolta (fimm daga í röð (tókum æfingu þarna á föstudeginum eftir að leikurinn var flautaður af)) og svo gleðina á laugardagskvöldinu var sunnudeginum eytt í mestu makindum fyrir framan sjónvarpið (af mér, þ.e., Þórunn lærði). Náði nokkrum góðum orkublundum og safnaði kröftum fyrir átök þessarar viku sem hefst fyrir ‘alvöru’ á eftir þar sem ég er að fara á æfingu hjá Celtic. Svo er leikur á morgun, önnur æfing á fimmtudag, leikur á laugardag. Spurning hvort það sé hægt að spila of mikinn fótbolta…? 😉

2 responses to “Að taka pólinn í hólinn…”

  1. Jonni says :

    haha … ég brosti nú út í annað þegar þú minntist á hægri kjénntinn: „kantmenn þurfa að hlaupa töluvert meira en bakverðir“

    Really??? 😉 I rest my case!

  2. JKB says :

    Það er þetta með of mikinn fótbolta, komon, hvað er þetta eiginlega, 22 fullfrískir, hlaupandi á eftir einni tuðru, hvurnin væri að skaffa fleiri bolta?

Skildu eftir svar við JKB Hætta við svar