Hefurðu ekki farið á Klakamót áður?!?

Svei mér þá ef maður hefur ekki bara hlegið yfir sig þessa helgina! Altént var mikil gleði í gangi þegar Klakamótið 2006 fór fram og að sjálfsögðu lét FC Ísland sig ekki vanta í þann stórviðburð. Helgargleðin byrjaði strax um miðjan dag á föstudag þegar liðið hittist á Solbakken kollegíinu og tók töflufund (lesist bjórdrykkja) og fór yfir leikaðferðir (lesist bjórdrykkja). Svo var brunað með strætó upp í Gladsaxe þar sem dregið var í riðla og mótið sett. Eftir það var svo haldið beint í háttinn (lesist meiri bjórdrykkja) og voru menn sofnaðir rétt fyrir tíu (lesist fjögur/hálffimm).

Daginn eftir tók svo alvaran við og voru spilaðir fjórir leikir við hin ýmsu lið. Fyrst áttum við leik við gestaliðið frá Íslandi sem kallaði sig Iceland Express. Þar voru samankomnir nokkrir refir úr íslenska boltanum sem höfðu margir hverjir líka landsleiki á bakinu. Áttum við lítið í þá og höfðu þeir sigur 4-2 sem verður að teljast nokkuð sanngjarnt. Því næst áttum við leik við slaka Horsens menn en lentum í tómu basli og rétt mörðum þá 2-1. Því næst var leikið við kempurnar í handboltaliði Guðrúnar þar sem hart var barist þar sem sigur í þeim leik þýddi „bragging rights“ út árið. Tvær vafasamar vítaspyrnur voru dæmdar, ein á hvort lið. Fór svo að lokum að þær höfðu úrslitaáhrif því við skoruðum úr okkar en Jói markmaður varði þeirra og 2-1 sigur því staðreynd. Síðasti leikur dagsins var svo við lið Óðinsvéa og þegar hér var komið sögu var þrekið á þrotum og unnu þeir okkur auðveldlega 2-0. Tveir sigrar og tvö töp eftir daginn sem á góðum degi myndi teljast slakur árangur en miðað við álagið undanfarna viku þá var þetta svosem ásættanlegt.

Eftir snögga sturtu var svo brunað í bæinn og beint á Shamrock þar sem við sáum United vinna Tottenham og því næst haldið á O’Learys þar sem við gleyptum í okkur borgara og nokkra drykki. Einhverjir í liðinu vildu endilega skella sér á Sam’s Bar (sem er karaokee staður fyrir þá sem ekki til þekkja). Þar var svo setið og sungið (Jón Auðunn sá um sönginn, við hinir sáum um að sitja). Að lokum gáfumst við upp (þó ekki allir) og héldum aftur upp í Gladsaxe og vorum sofnaðir skömmu eftir það, útkeyrðir eftir daginn. Restin af vitleysingunum var svo að skríða í hús undir morgun…

Í gær var svo úrslitakeppnin sem var í formi útsláttarkeppni þar sem byrjað var á átta liða úrslitum. Við áttum þar leik við upptrekkta Kolding menn sem virtust hafa meiri áhuga á því að tuða og nöldra en að spila fótbolta. Þeir reyndust vera lítil fyrirstaða og 4-1 sigur staðreynd. Undanúrslit framundan og þar var næsti mótherji sterkt lið Árósa. Það reyndist vera hörkuleikur og grófur með eindæmum. Tvö gul spjöld (og fimm mínútna brottvísanir) litu dagsins ljós þegar Oddur átti mjög grófa tæklingu á einum Árósamanninum (og fékk gult spjald) og liðsfélagar hans létu Odd heyra það svo um munaði og uppskar einn þeirra annað gult spjald í kjölfarið. Eftir það róaðist leikurinn þó niður, allavega varð minna um grófar tæklingar. Þeir náðu svo að skora í síðari hálfleik þegar skot utan af velli breytti um stefnu af Stebba og í netið. Við lögðum þá allt kapp í sóknina og hefðum með smá heppni getað jafnað. Rétt áður en leikurinn var svo flautaður af skoruðu þeir svo sitt annað mark og 0-2 tap því staðreynd… 😦

Strax á eftir var þá leikur um þriðja sætið við Óðinsvé sem við nenntum engan veginn að spila og var ákveðið að slá þessu bara upp í kæruleysi. Oddur fór í markið og við hinir skiptum allir um stöðu á vellinum, sóknin fór í vörnina og öfugt. Áherslan var lögð á skemmtun frekar en fótbolta og t.a.m. átti Jonni ein glæsilegustu tilþrif mótsins þegar hann dró bolinn upp fyrir höfuðið rétt áður en hann skallaði og tók svokallaðan blindskalla með glæsibrag og hlaut mikið klapp og hlátur af hliðarlínunni að launum. Oddur lét ekki sitt eftir liggja í markinu og með hjálp Gumma felldu þeir markið niður og ‘lokuðu’ þar með markinu. Dómarinn (sem tók þó þátt í gríninu af fullum krafti) varð auðvitað að spjalda Odd fyrir vikið (eðlilega) og Oddur skokkaði útaf með bros á vör. Hann dvaldi þó ekki lengi þar því hann vippaði sér úr markmannsgallanum og fékk treyjuna hjá Stebba lánaða og henti sér bara aftur inn á völlinn þrátt fyrir að vera í 5 mínútna brottvísun. Það tók þó dómarann ekki langa stund að átta sig á því og fékk Oddur því sitt annað gula spjald og þar með rautt spjald sem dómarinn gaf honum bara! Óðinsvé höfðu það af að skora þrjú mörk á Odd (enda afspyrnuslakur markvörður) og svo náði ég (kominn sem fremsti maður) að minnka muninn í tvö mörk. En þar við sat og við gerðum okkur því fjórða sætið að góðu þetta árið. Árósar höfðu svo sigur í úrslitaleiknum gegn liði frá Herlev.

Eftir snögga sturtu og tiltekt var svo haldið aftur heim af mótsstað með strætó þar sem flestir voru við það að sofna á leiðinni. Ótrúlega skemmtileg helgi að baki þar sem gleðin skipti meira máli en fótboltinn (hjá flestum liðum allavega). Ekki nokkur spurning hvar maður verður staddur á sama tíma að ári, Horsens baby!!!

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: