Archive | 25. mars, 2006

Best er að vera einn í biðröð…

Þeir sem þekkja mig vel vita að ég þoli ekki að standa í biðröð. Alveg sama hvar eða af hvaða tilefni, biðraðir eru satan í mínum augum. Því var það frekar hjákátlegt að ég skyldi bruna af stað rétt fyrir tíu í morgun til þess einmitt að standa í biðröð! Að vísu var ærið tilefni, klukkan tíu átti að byrja að selja miða á Radiohead tónleika sem verða í KB Hallen 6. og 7. maí. Ég var mættur rétt eftir tíu og sá strax að röðin var minni en ég hafði gert ráð fyrir. Ég bjóst því bara við að þetta myndi ganga eins og smurt, how wrong I was…

Hafði talað um það við Jonna daginn áður að við myndum gera þetta þannig að hann reyndi að kaupa miða á netinu (sem við gerðum ráð fyrir að myndi klikka) en ég færi á staðinn þar sem það væri meira ‘pottþétt’. Klukkan 10:15 (ca.) byrjaði hann að reyna að kaupa miða. Þegar hér var komið sögu hafði ekki einn einasti í röðinni í FONA í Amager Center (þar sem miðasalan var) ennþá keypt miða. Tuttugu og fimm mínútum síðar (ca.) hringir Jonni og segir mér að hann sé búinn að fá tvo miða og að á netinu standi að það sé orðið uppselt. Enn var ekki búið að selja einum einasta manni í röðinni sem ég var miða. Stuttu síðar kemur svo búðarstjórinn og tilkynnir að uppselt sé á tónleikana en hægt sé að skrá sig á biðlista…

Ég semsagt dreif mig af stað til að standa í biðröð! Ekki var það allavega til að kaupa miða því þeir voru greinilega ekki að gera það í FONA í morgun því að ekki einn einasti maður í röðinni þar fékk miða (leiðinlegt að vera fremstur þar). FONA kenndi tölvukerfinu um, tölvukerfinu sem seldi samt 20þ miða á þessum næstum klukkutíma sem ég beið þarna. Góð þjónusta? You bet…

Annars fórum við Jonni í helvíti gott partý í gær hjá Baldvin (sem varð þrítugur) og Elínu (kærustunni hans). Nóg af bjór (fyrir hina, gos fyrir mig), pylsum, karaóki, Singstar og fótboltaspil. Skemmst er frá því að segja að Jonni skipulagði mót í fótboltaspilinu með átta liðum og tveimur riðlum. Við félagarnir (liðið okkar hét Pinball Wizards (löng saga sem ég segi kannski frá seinna)) rústuðum okkar riðli og fórum því í undanúrslit þar sem við unnum Kjúklingana 10-1! Úrslitaleikurinn var svo æsispennandi en að lokum höfðum við sigur á Eika bikar og Prummanum 10-8. Til að kóróna þetta allt saman vann ég svo Jonna í Singstar þar sem við breimuðum Wake Me Up (Before you Go-Go) með Wham! með tilheyrandi hávaðamengun. Gæðin voru kannski ekki mikil en sigur er alltaf sigur! 😉

Við hjónin fórum annars í smá bæjarferð áðan að eyða pening. Það gekk stórvel…