It’s written in the stars…

Held að það sé fátt sem vekur jafn blendnar tilfinningar hjá mér og fólk sem trúir á stjörnu- og/eða talnaspeki. Mig langar allt í senn að gráta, hlæja, berja það, tala um fyrir því eða jafnvel bara að losa það undan þjáningum sínum í eitt skipti fyrir öll. Hvað er það sem veldur því að svona margir trúa jafn heitt á jafn mikið bull?!? Er það vegna þess að þegar allar aðrar skýringar bregðast er bara þægilegt að benda á eitthvað sem er yfirnáttúrulegt (fyrir þeim þ.e.)? Getur fólk virkilega trúað því að það sé hægt að segja til um það hver maður er og hvað maður sé að fara gera út frá jafn random hlut og því hvenær á árinu maður er fæddur?!??

Núna er ég fæddur 2. febrúar 1977 og ef við beitum nú ‘reglunni’ sem talnaspekingar nota þá gerir það 2 + 2 + 6 = 10 = 1 (líklega, þetta er svo fáránlegur algoriþmi að það er ekki fyrir hvítan mann að skilja þetta). Þ.a.l. er hægt að sjá að ég fell í flokk með einum ellefta af mannkyni (tölurnar sem eru í boði eru 1 upp í 9 og svo 11 og 22 (skil ekki alveg hvernig á að vera hægt að fá 11 og 22)) sem eru allir greinilega nákvæmlega eins hvað talnaspekina varðar. Að vísu eru þetta fullt af flottum og góðum eiginleikum sem ég greinilega bý yfir fyrir það eitt að vera fæddur þennan dag. Fyndið að bara það að vera fæddur daginn eftir gefur mér allt aðra eiginleika. Í raun er þetta þá bara mínútu eða jafnvel sekúndu spursmál. Gæti verið fæddur klukkan 23:59:59 þann 2. febrúar 1977. Vá, veit varla hvernig líf mitt hefði orðið hefði ég nú slysast til að fæðast svona eins og einni sekúndu síðar!!! Ég væri líklega bara róni eða götusópari…

Stjörnuspeki er á engan hátt skárri en talnaspeki, hún byggir á sömu vitleysunni. „Þú ert vatnsberi og þ.a.l. ertu bla bla bla bla bla…“. Athyglisvert og það sem er líka merkilegt er að þetta passar við fjári marga. En af hverju ætli það sé? Er það vegna þess að fyrir einhverja óútskýranlega krafta reikistjarnanna og stöðu þeirra nákvæmlega daginn, klukkutímann og mínútuna sem þú fæddist að það sé hægt að segja til um það hver þú ert? Nei, þetta er nefnilega byggt á ofureinfaldri stærðfræði sem allt of fáir skilja (Jonni, þú veist að ég er líka að tala um þig!). Ég er að sjálfsögðu að tala um tölfræði og líkindareikning. Það sem stjörnuspekingar (og talnaspekingar líka auðvitað) gera er að taka mörg ólík persónueinkenni og skeyta við hvert einasta stjörnumerki (og þessar lífstölur líka) og halda að það sé einhver sönnun fyrir þeirra fræðum. Galdurinn er að þú velur bara nógu helvíti mörg einkenni til að tryggja að allavega ákveðinn hluti þeirra passi við nánast hvern sem er sem fellur innan hópsins. Og þeir (sem kunna ekki tölfræði og líkindareikning auðvitað) verða alveg gáttaðir á því hvað þetta er ‘nákvæmt’!

Ég gæti auðvitað haldið áfram og farið að tala um miðla líka sem notfæra sér sömu vanþekkingu fólks til að hafa af því pening. Þetta er allt byggt á því sama, tölfræði og líkindareikningi. Heilu spilavítin eru starfrækt og blómstra vegna þess eins að fólk hreinlega skilur þessa fræði ekki. Spilafíkillinn heldur alltaf áfram því hann hreinlega fattar ekki að líkurnar eru alltaf honum í óhag, bara örlítið þó svo hann gefist ekki upp strax. Held að það væri ráð að fólk myndi eyða jafn miklum tíma í að reyna að skilja hvernig tölfræði og líkindareikningur virkar eins og það eyðir núna í þessi ‘gervivísindi’…

Auglýsingar

4 responses to “It’s written in the stars…”

 1. Jonathan Gerlach says :

  Hér höfum við gott fólk skólabókardæmi um vinstri heilastarfsemi (laddi (tölfræðin, líkindareikningurinn)) vs. hægri heilastarfsemi (jonni (sköpunargleði, hið andlega)). Ég er ekki að segja að þetta stjörnuspekis rugl sé eitthvað trúverðugt heldur einungis það að sá sem lætur tölfræði stjórna öllu sem hann (eða hún) gerir á aldrei eftir uppgötva neitt í lífinu …

 2. Anonymous says :

  Vatnsberinn

  Árstími Vatnsberans er miðja vetrarins. Dagarnir lengjast en enn er langt í vorið og sumarið. Ákveðin biðstaða ríkir í náttúrunni. Segja má að froststillur vetrarins, þeir dagar í janúar og febrúar þegar veður er kalt en algert logn ríkir og sjá má langt og víða, lýsi eðli Vatnsberans. Hann er iðulega svalur, heiðríkur og yfirvegaður eins og lygn og fallegur vetrardagur.

  Yfirvegun
  Hinn dæmigerði Vatnsberi er yfirleitt rólegur, vingjarnlegur og þægilegur í framkomu. Hann er yfirvegaður og viðræðugóður en hleypir fólki samt sem áður ekki of nálægt sér. Hann er oft á tíðum heldur dularfullur eða a.m.k. fjarlægur. Að minnsta kosti finnst öðrum oft erfitt að átta sig á honum. Ein ástæða fyrir þessu er sú að hann er frekar ópersónulegur og lítið fyrir að ræða um sjálfan sig og bera tilfinningar sínar á torg.

  Hugsun og skynsemi
  Vatnsberinn er hugmyndamerki og vill láta hugsun og skynsemi stjórna gerðum sínum og tilfinningum. Hann hefur þann hæfileika að geta verið hlutlaus, jafnvel þegar um erfið mál er að ræða. Svo virðist sem hann fari þá ‘útfyrir’ sjálfan sig eða geti horft ópersónulegum augum á það sem er að gerast. Vatnsberinn er rökfastur og hefur því hæfileika og getu til að taka skynsamlega afstöðu til mála. Hann hefur einnig orð á sér fyrir að hafa skýra og yfirvegaða hugsun.

  Stöðugleiki
  Vatnsberinn er eitt af stöðugu merkjunum. Hann er því fastur fyrir og á til að vera þrjóskur og stífur. Hann heldur fast í hugmyndir sínar og hefur sérstök viðhorf til lífsins. Hann á einnig til að vera frekur og stjórnsamur, en fer oft fínt með þann eiginleika. Kannski má frekar segja að stjórnsemi hans varði fyrst og fremst hann sjálfan og birtist í því að honum er illa við afskiptasemi annarra. Hann vill því ekki endilega stjórna öðru fólki, því slíku fylgir iðulega ábyrgð og persónulegt ófrelsi.

  Félagslyndi
  Vatnsberinn er félagslyndur og þarf á fólki að halda, en félagslyndi hans birtist oft þannig að hann vill hafa margt fólk í kringum sig en samt sem áður ekki vera bundinn ákveðnum einstaklingum.

  Á undan samtímanum
  Það er einkennandi fyrir Vatnsbera að leitast eftir því að skapa sér sérstöðu. Það hver sérstaðan er er mismunandi frá einum Vatnsbera til annars. Sumir leggja áherslu á sérstakan klæðaburð og stíl (og eru alltaf einu skrefi á undan tískunni). Aðrir hafa ákveðnar og stundum óvenjulegar hugmyndir sem valda því að þeir skera sig úr fjöldanum. Hver sem aðferðin er nákvæmlega þá er Vatnsberinn oft uppfinningasamur og frumlegur.

  Pælingar
  Til að viðhalda lífsorku sinni og endurnýja hana þarf Vatnsberinn að hafa fólk í kringum sig og hafa úr nógu að moða hvað varðar hugmyndir og pælingar. Hann verður daufur og orkulítill ef hann er í félagslegri einangrun og hefur fátt til að örva hugann. Hann þarf að hafa ákveðna yfirsýn yfir lífið og tilveruna og ef sjóndeildarhringurinn er of þröngur þrífst hann illa.

  Frelsi
  Að lokum má geta þess að sterk frelsisþörf er eitt helsta einkenni Vatnsberans. Það hvernig hann sækir frelsi sitt er mismunandi frá einum til annars, en oftast notar hann sambland af hlutleysi, yfirvegun og því að leitast við að vera óháður öðrum. Vatnsberi sem vinnur á stórum vinnustað, svo dæmi sé tekið, leggur oft áherslu á að vera hlutlaus gagnvart vinnufélögum sínum og þá sérstaklega þeim sem eru ráðríkir og tilætlunarsamir. Hann kemur yfirleitt fram af yfirvegun. Hlutleysi og yfirvegun gera það að verkum að hann stuðar aðra ekki, sem fyrir vikið ‘hafa ekkert á hann’. Hann heldur því frelsi sínu. Og með því að vera óháður, þ.e.a.s. að taka ekki afstöðu með einni klíku gegn annarri, þá gerist það sama. Hann er frjáls að umgangast hvern sem er og halda þeirri yfirsýn sem hann vill halda. Sumir Vatnsberar auglýsa sérstöðu sína, en yfirvegun og hlutleysi annarra er þess eðlis að fólk tekur ekki eftir því hversu sjálfstæðir og sérstakir þeir eru í raun. Þar fyrir utan er sérstaða Vatnsberans oft fólgin í hugsun hans og hugmyndaheimi, frekar en athöfnum, enda Vatnsberinn pælari og hugsuður.

 3. Anna B. C. says :

  – kannski akkúrat núna er ég sammála þér!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: